Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, varaði Evrópusambandið við að hann myndi hleypa 3 milljónum flóttamanna til Evrópu - ef að Evrópusambandið myndi slíta aðildarviðræðum við Tyrkland. Evrópuþingið hefur gagrnýnt stjórnina í Ankara nokkuð harkalega á síðustu misserum. Financial Times greinir frá.

Til að mynda þá hefur komið upp sú tillaga að slíta aðildarviðræðum við Tyrkja, sem hafa stefnt að því að ganga í sambandið í tæplega 30 ár. Hann kallaði orðræðu Evrópuþingsins varðandi valdaránstilraun í landinu „kúgunarstefnu“ og varaði við að hann myndi senda rútufarma af flóttamönnum til ríkja Evrópusambandsins, ef gagnrýnin héldi áfram.

„Það erum við sem brauðfæðum 3 til 3,5 milljónir flóttamanna hér í Tyrklandi. Þið hafið svikið loforð ykkar. Ef þið gangið lengra ætla ég að opna landamærin,“ sagði Erdogan í dag.