*

föstudagur, 20. október 2017
Innlent 20. ágúst 2012 18:35

Ben Stiller dreifir sér víða um land

Nýjasta kvikmynd Hollywood leikarans Ben Stiller verður tekin upp á Seyðisfirði, Stykkishólmi, Borgarnesi og í Garði.

Ritstjórn

Seyðisfjörður verður látinn líta út fyrir að vera mannlaus, ásýnd ráðhússins í Stykkshólmi breytt og skipi komið fyrir við bryggju í Garði. Þá verður Geirabakaríi í Borgarnesi lokað í nokkra daga, allt vegna kvikmyndar Bens Stiller, The Secret Life of Walter Mitty.

Frá þessu er greint á vef Ríkisútvarpsins sem fjallar um framleiðslu myndarinnar. Töluvert hefur verið um erlenda kvikmyndaframleiðslu hér á landi í vor og í sumar með tilheyrandi fjölgun frægra Íslandsvina úr hópi Hollywood leikara en mynd Stillers sker sig nokkuð úr hópi þeirra verkefna þar sem hún dreifir sér meira yfir landið en önnur verkefni.

Fram kemur í frétt RÚV að bæjarráð Seyðisfjarðar hafi nýlega fjallað um tökurnar en Stiller hyggst taka upp hluta myndarinnar þar. Að sögn Daníels Björnssonar, fjármálastjóra bæjarins, stendur til að láta Seyðisfjörð líta út fyrir að vera mannlaus bær í heilan dag , öll umferð um miðbæinn verður  bönnuð og skipt verður út skiltum á áberandi stöðum. Daníel segir að þótt tökudagurinn verði aðeins einn í sjálfum bænum komi tvö hundruð manna tökulið til Seyðisfjarðar og 25 trukkar. Tökulið Stillers verður einnig talsvert uppi á Fjarðarheiði.

Nokkur fjöldi Íslendinga fær störf við kvikmyndina leikarinn Ólafur Darri Ólafsson mun jafnframt fara með stórt hlutverk í myndinni.

Sjá frétt RÚV.