Stjórnarráðið bendir á, á vef sínum, að á tímabilinu 2013 til 2017 hafa laun á Íslandi hækkað um 80% ef miðað er við gengi evrunnar. Er þar miðað við tölur Eurostat um launakostnað á vinnustund, en samkvæmt þeim hækkuðu laun hvergi í Evrópu jafnmikið og hér á landi á tímabilinu.

Á sama tíma var verðlag hér á landi 66% hærra en að meðaltali í löndum ESB árið 2017, en þar kemur á móti styrking krónunnar og afnám tolla og vörugjalda. Þannig hafi laun hækkað meira en verðlag, en Ísland er í sjötta sæti meðal Evrópuríkja um einstaklingsbundna neyslu á mann og öðru sæti meðal Norðurlandanna á eftir Noregi.

Á árinu 2017 hafi launakostnaður á hverja vinnustund í evrum talið jafnframt verið 74% hærri hér á landi en að meðaltali í löndum Evrópusambandsins að því er stjórnarráðið bendir á.