Tíu manns hafa tilkynnt um framboð sitt til stjórnar VÍS. Aðeins fimm geta setið í stjórninni að hverju sinni. Meðal þeirra sem bjóða sig fram eru Benedikt Gíslason og Davíð Harðarson. Eftirtaldir buðu sig fram til aðalstjórnar VÍS:

  • Benedikt Gíslason
  • Davíð Harðarson
  • Guðný Hansdóttir
  • Helga Hlín Hákonardóttir
  • Helga Jónsdóttir
  • Herdís Dröfn Fjeldsted
  • Jostein SØrvoll
  • Jóhann Halldórsson
  • Kristján Finnur Sæmundsson
  • Reynir Finndal Grétarsson

Þegar sitja í stjórn VÍS þau Bjarni Brynjólfsson, Helga Jónsdóttir, Guðmundur Þórðarson, Jostein SØrvoll sem er varaformaður stjórnar og Herdís Dröfn Fjeldsted sem er formaður stjórnar.

Því er ljóst að Reynir Finndal, Kristján Finnur, Jóhann Halldórsson, Helga Hlín Hákonardóttir, Guðný Hansdóttir, Davíð Harðarson og Benedikt Gíslason eru ný í framboði - sjö talsins.

Til varastjórnar buðu sig fram þau Andri Gunnarsson, Guðmundur Helgi Þorsteinsson og Soffía Lárusdóttir, en í varastjórn sitja nú þegar þau Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir og Andri Gunnarsson.

Tilkynnt var um kaup félagsins Grandier ehf. á 6,62% hlut í VÍS í dag. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru Sigurður Bollason og Don McCarthy meðal eigenda Grandier ehf., en Viðskiptablaðið fjallaði um kaup Sigurðar og Don í gær.

Grandier ehf. keypti hluti fyrir um 100 milljónir hluti í gær og bættu við um 50 milljón hlutum í dag. Kaupverðið var í kringum 1,2 milljarð íslenskra króna.

Sigurður Bollason keypti ásamt Magnúsi Ármann og Kaupþingi 40% hlut í tískufyrirtækinu Karen Millen árið 2001. Karen Millen var svo seld til Oasis Group, sem var í meirihlutaeigu Baugs og varð svo hluti af Mosaic Fashions. Árið 2005 eignaðist McCarthy ásamt öðrum tískufyrirtækið Rubicon Retail og var forstjóri og stjórnarformaður þess félags þar til Mosaic Fashions keypti Rubicon árið 2006.