Styrking krónunnar og aðgerðir Seðlabanka Íslands voru ræddar í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi. Þar sagði fjármálaráðherra að þessi staða kallaði á róttækar lausnir.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, spurði Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi hvort að hann sammælist Seðlabankanum sem hafði tilkynnt um að nú væri rétti tíminn til að hætta kaupum á gjaldeyri? Enn fremur spurði hann Benedikt hvort að hann teldi líklegt að gengið myndi hætta að styrkjast ef Seðlabankinn hætti slíkum kaupum. Í þriðja lagi spurði Sigurður Ingi hvort að vaxtamunaviðskipti hafi átt drjúgan þátt í því að efnahagslífið hafi farið á hliðina árið 2008 og hvort að rétt væri að grípa til aðgerða nú til að sporna við þessum viðskiptum sem aftur eru hafin.

Í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins , kom fram að í aprílmánuði nam fjármagnsinnflæði í íslensk ríkisskuldabréf 1,6 milljörðum króna en slík vaxtamunaviðskipti stöðvuðust í kjölfar þess að nýjar reglur Seðlabankans, svonefnt fjárstreymistæki, voru settar á júní síðastliðnum, en hafa nú hafist á ný eftir 10 mánaða hlé.

Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, segist deila þessum áhyggjum Sigurðar Inga yfir styrkingu krónunnar. „Ég er ekki viss um að þessi aðgerð sé sú besta, en ég ræð þessu ekki,“ segir Benedikt og vísar til inngripa Seðlabankans. Hann sagðist ekki hafa heyrt af þessum kaupum á skuldabréfum.

„Ég get hins vegar svarað háttvirtum þingmanni ótvírætt að vaxtamunaviðskiptin sem tíðkuðust fyrir hrunið 2008 hafi leitt okkur í mikla ógæfu, þar erum við örugglega sammála,“ bætti fjármálaráðherra við.

Engin samstaða um myntráð

Sigurður Ingi steig í kjölfarið aftur í pontu og segir að hin róttæka lausn sem að fjármálaráðherra hafi talað um í fyrra andsvari hafi verið myntráð. „Um það er engin samstaða í ríkisstjórninni. Ríkisstjórnarsamstarfið er í uppnámi,“ sagði formaður Framsóknar.

Að lokum spyr hann hvort að athafnaleysi og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar og hugsanlega Seðlabanka Íslands varðandi styrkingu íslensku krónunnar ekki óhjákvæmilega leiða til þeirrar niðurstöðu að það muni réttar aðstæður skapast til að binda gengi krónunnar við erlenda mynt eða myntkörfu.

Benedikt viðurkennir þá að það sé rétt hjá Sigurði Inga að hugmyndin um myntráð eða fasttengingu krónunnar við annað hvort ákveðna mynt eða myntkörfu er ekki stefna nema eins flokks. „Viðreisn hefur boðað þá stefnu,“ sagði fjármála- og efnahagsráðherra.