Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra, segist ekki hafa fengið fullnægjandi svör við spurningum þeim sem hann lagði fyrir Fjármálaeftirlitið um kaupendur á tæplega 30% hlut í Arion banka.

Meðal þess sem þar kemur þó fram er að allir nýju hluthafarnir voru einnig meðal kröfuhafa og þar með eigendur Kaupþings, eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um .

Segir Benedikt nauðsynlegt að fá upplýsingar um hverjir standi að bak við kaupunum því nú spyrji allir hvort einhver lundaflétta sé í gangi og vísar þar með í kaup Ólafs Ólafssonar og Kaupþings á Búnaðarbankanum árið 2003, að því er segir í frétt RÚV .

Skoðun greinilega ekki komin langt

Sagði Benedikt að starfsmenn Fjármálaeftirlitsins væru greinilega ekki komnir langt með að skoða þá sem keyptu hlutabréfin í Arion banka, því aðeins komi fram að um sé að ræða dótturfélög áður tilgreindra kaupenda.

„Þannig að það er eiginlega ekkert nýtt þarna,“ segir Benedikt sem segir að svo virðist sem engu breytti í huga FME að það væru kröfuhafar Kaupþings sem væru að kaupa beinan hlut í Arion banka.

„Þau ítreka að það sé ekki farin í gang skoðun þeirra vegna þess að þau líta svo á að 9,99 prósent séu ekki virkur eignarhlutur.“

Réttur til að vita eignarhaldið

Benedikt segist lítið geta gert í krafti síns embættis. „Ég get ekki beitt mér öðruvísi en að spyrja aftur og láta í ljósi þá eindregnu skoðun mína að íslenska þjóðin eigi rétt á að vita þetta,“ segir Benedikt.

„Ég held að það sé afar mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að það komi skýr svör. Það er líka mikilvægt bæði fyrir þessa eigendur og fyrir bankann að það sé ekki tortryggni í garð þessara aðili.

Gæti það verið að þarna sé einhver lundaflétta í gangi? Það hugsa allir þannig. Við eigum heimtingu á að vita það og verðum að skoða það strax.“