Benedikt Jóhannesson hyggst skipa nýjan starfshóp til að skoða kosti og galla þess að viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi íslenskra banka verði aðskilin.

„Forveri minn hafði skipað starfshóp sem skilaði áfangaskýrslu fyrir skömmu,“ segir Benedikt í samtali við Viðskiptablaðið en fresturinn til að tilnefna í hópinn var gefinn til dagsins í dag.

„Ég tel þetta mjög mikilvægt svo ég er að skipa starfshópinn akkúrat núna.“

Mestu leyti sami hópur

Sömu aðilar eiga að skipa í nýja hópinn og skipuðu í þann fyrri, en í honum voru þau Leifur Arnkell Skarphéðinsson, frá Fjármálaráðuneytinu, Sigríður Benediktsdóttir og Sigríður Logadóttir frá Seðlabanka Íslands og Jón Þór Sturluson og Björk Sigurgísladóttir frá Fjármálaeftirlitinu.

„Það verður ekki alveg sama fólk, þó ég viti það ekki enn, en ég hugsa að það verði að mestu leyti sami hópur,“ segir Benedikt en aðspurður segist hann ekki vita hvenær hann geti fengið lagafrumvarp byggt á tillögum hópsins í hendurnar.

„Að minnsta kosti vonast ég til þess að fá skýrslu frá hópnum í maí, og mun ég þá birta Alþingi hana,“ segir Benedikt.

Niðurstaðan ekki ákveðin fyrir fram

„Þetta verður innlegg í umræðuna fyrst og fremst, en alls ekki til þess að fá fyrir ákveðna niðurstöðu, því það er mikill áhugi á þessu, bæði í samfélaginu almennt og sér í lagi á Alþingi.“

Benedikt segir að hópurinn muni fjalla um hver þáttur fjárfestingarstarfsemi eigi að vera í bönkunum enda brenni sú spurning á mörgum. „Það er auðvitað eitt af því sem menn munu fjalla um,“ segir Benedikt.

„Væntanlega verður einnig horft til áhættunnar í bankakerfinu, hvort huga þurfi sérstaklega að kerfislægri áhættu í kerfinu, eða hvort hún hafi minnkað í kjölfar nýrra reglna sem voru settar eftir hrunið.

Hún hefur alveg örugglega minnkað eftir hrunið, reikna ég með.“ Benedikt segir að í vinnu starfshópsins verði tekið mið að því hvernig þessum málum verði háttað í Evrópu.

„Það er auðvitað það regluverk sem er í gildi hér á landi, þannig að við myndum horfa á hvernig menn hafa gert þetta í löndunum á Evrópska efnahagssvæðinu.“