Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, skrifar í pistli á vefsíðu Viðreisnar að hans skoðun sé sú að peningastefnunefnd eigi að taka á sig rögg núna í maí og lækka vexti myndarlega. Pistilinn skrifar Benedikt í tilefni af hundrað og ellefu daga afmæli ríkisstjórnarinnar.

Í pistlinum segir Benedikt þó að hann segi Seðlabankanum auðvitað ekki fyrir verkum, en hann vill að skoðun sín heyrist. Að hans mati getur peningastefnunefnd hækkað vexti aftur næst ef henni finnst viðbrögð hagkerfisins of ofsafengin.

Lægri vextir keppikefli nærri allra

„Lægri vextir hér á landi eru keppikefli okkar margra, kannski nærri allra. Háir vextir stuðla að háu gengi krónunnar, gengi sem er svo hátt að ferðaþjónustan, sjávarútvegurinn og reyndar allar greinar sem keppa við útlönd eða selja þangað vöru eða þjónustu eru að kikna. Við viljum byggja upp tæknistörf, en íslensk tæknifyrirtæki vilja frekar kaupa þjónustu tæknimenntaðs fólks frá útlöndum vegna þess að það er miklu ódýrara. Nú eru það ekki bara vörur frá útlöndum sem eru ódýrari, nú er það líka vinnuaflið,“ tekur fjármálaráðherra fram í pistli sínum.

Benedikt segist ekki ætla að spá fyrir um næstu vaxtalækkun, en hann segir þó að það væri gott merki um að bankanum væri alvara í því að stemma stigu við óbærilegri styrkingu krónunnar að lækka vexti um hálft prósent á næsta fundi peningastefnunefndarinnar. „Bankinn hefur spornað við styrkingunni með því að kaupa næstum milljarð af gjaldeyri á dag, en vaxtalækkunin væri miklu kröftugra tæki,“ skrifar Benedikt.

Vaxtalækkun þyrfti að fylgja dempun

Fjármálaráðherra gerir sér þó grein fyrir því að öllum aðgerðum fylgi áhætta, og að spenna sé mikil á markaði og því þyrfti vaxtalækkun að fylgja dempun með útlánum með öðrum ráðum, til dæmis með með lækkun á veðhlutföllum, svo að vaxtalækkunin færi ekki beint í hærra húsnæðisverð skrifar Benedikt.

„Lífeyrissjóðirnir sæju sér eflaust meiri hag í því að færa hluta af sínum fjárfestingum til útlanda. Burtséð frá öllu öðru er það líka nauðsynlegt því að hagkerfið rúmar þá varla lengur með allt sitt fjármagn,“ bætir hann við.