Atvinnuleysi í mars síðastliðnum mældist 1,7% og hefur ekki verið jafn lágt síðan árið 2007. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum sveiflum mældist atvinnuleysi 1,6% í mars. Þetta kemur fram í vinnumarkaðsrannsókn sem Hagstofa Íslands birti í gær.

Samfara vaxandi umsvifum í hagkerfinu hefur eftirspurn eftir vinnuafli aukist. Atvinnuleysi hefur því minnkað hratt og í dag er atvinnuleysi eitt það minnsta sem þekkist meðal iðnvæddra ríkja. Meginþorri nýrra starfa í hagkerfinu undanfarin sjö ár skýrist af fjölgun starfa í greinum sem tengjast íslenskri ferðaþjónustu.

Greiningaraðilar spá áframhaldandi en hægjandi hagvexti á næstu árum og telja að atvinnuleysi verði lítið. Þá spá þeir að erlent vinnuafl muni í miklum mæli vinna að hagvextinum og að atvinnuleysi verði áfram undir jafnvægisatvinnuleysi.

Ferðaþjónustan skapar störf

Eftir hrun viðskiptabankanna og gengisfall krónunnar árið 2008 jókst atvinnuleysi mikið og fór hæst í tæplega 12% í maí 2010. Síðan þá hefur atvinnuleysi farið minnkandi. Í mars síðastliðnum fór atvinnuleysi niður í 112-mánaða lágmark, eða 1,6%, og hefur ekki verið lægra síðan í nóvember 2007 þegar atvinnuleysi mældist 1,3%. Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs var atvinnuleysi 2,9%. Undanfarna 15 mánuði hefur atvinnuleysi verið sögulega lágt, en síðasta aldarfjórðung hefur atvinnuleysi verið 4,04% að meðaltali. Þá hefur atvinnuþátttaka, þ.e. hlutfall vinnuaflsins af íbúafjölda í landinu, aukist talsvert undanfarin ár. Árstíðaleiðrétt atvinnuþátttaka nam 83,9% í mars síðastliðnum.

Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka, segir mikinn hagvöxt og vöxt ferðaþjónustunnar að miklu leyti útskýra minnkandi atvinnuleysi undanfarin ár.

„Það er mikill hagvöxtur í landinu, sem krefst mikils vinnuafls. Sú grein sem hefur verið umfangsmest í hagvextinum og atvinnusköpun er ferðaþjónustan. Við áætlum að á milli 2010 og 2016 hafi 42% af 32.300 nýjum störfum í hagkerfinu skapast í ferðaþjónustu. Í því hlutfalli er hins vegar ekki tekið tillit til óbeinnar atvinnusköpunar ferðaþjónustunnar, t.d. í byggingargeiranum. Það má því fastlega gera ráð fyrir því að hlutfallið sé talsvert hærra og að ferðaþjónustan hafi skapað yfir helming af öllum nýjum störfum sem hafa orðið til í hagkerfinu frá 2010.“

Ingólfur segir þó að atvinnuleysistölurnar beri vott um þenslu. „Atvinnuleysi hefur lækkað tiltölulega hratt og er nú mjög lágt. En atvinnuleysi er fyrir neðan jafnvægisatvinnuleysi, sem er atvinnuleysi við stöðugt verðbólgustig. Jafnvægisatvinnuleysi breytist yfir tíma og menn greinir á hvar þetta jafnvægi liggur nákvæmlega, en í dag er það í kringum 3%. Það er merki um að það sé þensla á markaði.“

Hvar er þá verðbólgan?

Hagfræðin segir að neikvætt samband sé á milli atvinnustigs og verð- bólgu, í þeim skilningi að fórna þurfi atvinnustigi fyrir lægri verðbólgu og öfugt. Í seinni tíð hefur verið bent á að einungis sé um skammtímasamband að ræða þar á milli, samkvæmt svokallaðri Phillips-kúrfu. Frá hruni hefur þó bæði atvinnuleysi og verðbólga minnkað. Ingólfur segir þetta skýrast af styrkingu krónunnar, vexti ferðaþjónustunnar og innflutningi á erlendu vinnuafli.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .