Bergey VE landaði í Vestmannaeyjum sl. miðvikudag og þar með var afli skipsins á árinu kominn yfir 4000 tonn. Það er mesti afli sem skipið hefur borið að landi á einu ári og desemberaflinn á eftir að bætast þar við. Þetta kemur fram á vef Síldarvinnslunnar.

Næstmesti ársafli Bergeyjar var í fyrra en þá fiskaði skipið 3660 tonn. Í tilefni af því að 4000 tonna múrinn var rofinn sló heimasíðan á þráðinn til Jóns Valgeirssonar skipstjóra. „Það hefur gengið vel hjá okkur á árinu og því getum við þakkað frábærri áhöfn og frábæru fyrirtæki,“ sagði Jón. „ Aflinn á árinu er að uppistöðu til ýsa, ufsi, karfi og þorskur og í reynd erum við stærstan hluta ársins að eltast við ýsu. Veiðisvæðið okkar er fyrst og fremst við suðurströndina og síðan er farið austur fyrir land. Við höfum sáralítið farið vestur á þessu ári. Við löndum oftast í Eyjum en eins höfum við landað nokkuð á Seyðisfirði. Þegar vel fiskast reynir mikið á mannskapinn um borð og á Bergey er súpermannskapur. Við erum nokkrir í áhöfninni sem höfum verið á skipinu frá upphafi og aðrir hafa verið lengi. Þeir sem koma hér um borð klára yfirleitt sjómannsferilinn hérna  -  þeir fara ekkert annað. Á Bergey er ánægður mannskapur og andinn um borð er eins og best gerist,“ sagði Jón Valgeirsson að lokum.

Það er Bergur-Huginn í Vestmannaeyjum sem gerir Bergey út en Bergur-Huginn er í eigu Síldarvinnslunnar. Auk Bergeyjar gerir Bergur-Huginn út Vestmannaey VE og hefur einnig fiskast afar vel á það skip á árinu. Afli Vestmannaeyjar nú um mánaðamótin var 3800 tonn en skipið var frá veiðum um tíma fyrr á árinu vegna viðhalds. Aflaverðmæti hvors skips það sem af er ári er yfir einn milljarður og verður það að teljast góður árangur. Þó ber að hafa í huga að vegna gengisþróunar og ástands á mörkuðum er aflaverðmæti skipanna minna en í fyrra þrátt fyrir meiri afla.

Í morgun fagnaði áhöfn Bergeyjar góðu aflaári með tertuveislu og upp úr hádeginu var samsvarandi veisla um borð í Vestmannaey.