Berg­lind Ásgeirs­dótt­ir, sendi­herra í Frakk­landi, tilkynnti rétt í þessu á Facebooksíðu sinni að hún ætli ekki að gefa kost á sér til emb­ættis for­seta Íslands.

Í heild sinni hljóðaði tilkynningin svo:

„Ég hef að und­an­förnu íhugað það gaum­gæfi­lega að gefa kost á mér í fram­boð til emb­ættis for­seta Íslands. Meg­in­á­stæður þess eru tvær. Ann­ars vegar hef ég talið reynslu mína í marg­vís­legum störfum fyrir íslenska þjóð á und­an­förnum árum geta nýst á for­seta­stóli og hins vegar hef ég lengi verið þeirrar skoð­unar að for­seti geti verið öfl­ugur máls­hefj­andi og jafn­framt þátt­tak­andi í brýnni umræðu.

Í þeim efnum hef ég einkum í huga ein­lægt og yfir­vegað sam­tal um mannauð íslenskrar þjóð­ar, bæði þeirra sem hér eru fæddir og hinna sem til okkar hafa flust frá öðrum lönd­um. Ég hef líka verið upp­tekin af þeim atgervis­flótta sem við okkur blasir og hvernig unnt sé að skapa ungu fólki á Íslandi þannig aðstæður að við missum það ekki frá okk­ur. Ég er sann­færð um að for­seti Íslands geti orðið mik­il­vægur afl­vaki umræðu um hvernig við getum sett okkar langstærstu auð­lind, fólkið í land­inu, í önd­vegi.

Ísland hefur alla burði til þess að fóstra íbúa sína með þeim hætti að þeim líði vel, lifi saman í sátt og vilji hvergi ann­ars staðar vera. Það getur líka breitt út faðm sinn og tekið á móti ferða­mönnum þannig að sómi sé að. Ef vel er að málum staðið geta þeir sem byggja þetta land eða sækja það heim notið allsnægta sem óvíða finn­ast meiri. Emb­ætti for­seta Íslands á að leggja sitt af mörkum til þess að traustur vörður sé stað­inn um þau verð­mæti sem við eigum mest. Þar lang­aði mig til að leggja mitt af mörk­um.

Ég hef fundið fyrir miklum stuðn­ingi víða að úr sam­fé­lag­inu, ekki síst frá konum og ungu fólki. Mér þykir afar mikið til þessa koma en hef engu að síður tekið þá ákvörðun að láta staðar numið í þessum hug­renn­ing­um. Ég mun því ekki verða á meðal þátt­tak­enda í aðdrag­anda for­seta­kosn­ing­anna en óska stórum hópi fram­bjóð­enda vel­gengni og sömu­leiðis þeim sem hlut­skarpastur verður að leik lokn­um. "