Sænska fjármálaráðgjafafyrirtækið Beringer Finance hefur sameinast Fondsfinans, elsta fjárfestingabanka Noregs stofnaður 1915. Um 80 manns munu starfa hjá sameinuðum banka í Stokkhólmi, Osló, Reykjavík, New York og í Kísildalnum í Kaliforníu.

Í tilkynningu segir að með samrunanum gefist færi á að leiða saman sérfræðiþekkingu starfsfólks Beringer Finance og fjárfestagrunn Fondfinans í Noregi, sem og víðfema þekkingu starfsfólks á fjármálamarkaði Norðurlandanna og Bandaríkjanna. Þau fjárfestingaverkefni sem Fondfinans hefur unnið að fyrir viðskiptavini sína síðan árið 2000 nema meira en 3.000 milljörðum íslenskra króna.

Aðalsteinn Jóhannsson.
Aðalsteinn Jóhannsson.

Aðalsteinn verður forstjóri

Aðalsteinn Jóhannsson, stofnandi og aðaleigandi Beringer Finance, verður forstjóri nýs banka. Haft er eftir honum í tilkynningunni að sú stefna hafi verið tekin að árið 2020 verði Beringer Finance í fremstu röð þegar kemur að fjárfestingabankastarfsemi í tæknigeiranum. Samruninn sé stórt skref í átt til þess.

„Við stefnum á að verða leiðandi í ráðgjöf til fjárfesta, frumkvöðla og stærri fyrirtækja í tæknigeiranum. Við viljum kynna kynna viðskiptavini okkar fyrir tækifærum um allan heim, hvort sem það er til að kaupa önnur félög, selja sín eigin félög eða afla fjármagns frá alþjóðlegum fjárfestum. Við höfum þegar komið að viðskiptum á Íslandi, eins og varðandi Advania og Betware ásamt fleirum og munum áfram hafa augun opin fyrir tækifærum á sviði nýsköpunar og tækni á Íslandi,“ segir Aðalsteinn.

Fondfinans er að fullu í eigu Must-fjölskyldunnar í Noregi. Eftir samrunann mun hún eiga 50% í sameinuðu fyrirtæki og eignarhaldsfélag Beringer Finance önnur 50 prósent. Samruninn er háður samþykki Fjármálaeftirlitsins í Noregi og Bandaríkjunum.