Undir lok desember á ári hverju gefur bandaríska viðskiptatímaritið Forbes út lista („Best Countries for Business“) yfir þau lönd þar sem best verður að stunda viðskipti á nýju ári. Alls eru 139 lönd á listanum fyrir árið 2017 og er þar að finna lönd frá öllum heimsálfum.

Í fyrsta sæti listans er Svíþjóð, en árið 2006 var Svíþjóð í 17. sæti. Undanfarna tvo áratugi hefur Svíþjóð fellt úr gildi ýmsar reglugerðir og gætt aðhalds í ríkisfjármálum. Til að hafa hvetjandi áhrif á vinnumarkaðinn var sænska velferðarkerfið skorið niður, m.a. með því að draga úr atvinnuleysis- og öryrkjubótum.

Niðurskurðurinn skapaði aftur á móti svigrúm fyrir skattalækkanir. Skattur á arf var felldur úr gildi árið 2005, sem og auðlegðarskatturinn tveimur árum síðar. Skattar sem hlutfall af hagnaði hafa lækkað um 8% undanfarinn áratug og hefur þungu fargi verið létt af Svíum síðastliðin ár, því skattbyrði hefur einnig minnkað umtalsvert.

Hagvöxtur í Svíþjóð var 4,2% á síðasta ári, sem er þriðji mesti vöxturinn í landsframleiðslu þeirra ríkja sem rúmast á lista Forbes (hagvöxtur á Írlandi var 26,3% og 4,8% í Lúxembourg). Alls búa rétt undir 10 milljónir í Svíþjóð, en verg landsframleiðsla á mann var 50.300 Bandaríkjadollarar í fyrra (um 5,7 milljónir íslenskra króna), sem er svipað og á Íslandi. Skuldir hins opinbera eru lágar í Svíþjóð í samanburði við önnur ESB-ríki. Hindranir í utanríkisviðskiptum eru ennfremur mjög litlar og var viðskiptaafgangur Svía 5,2% af VLF á síðasta ári.

Í næstu fjórum sætum á eftir Svíþjóð eru Nýja Sjáland, Hong Kong, Írland og Bretland. Öll norðurlöndin eru í tíu efstu sætum listans (Svíþjóð í 1. sæti, Danmörk í 6. sæti, Finnland í 8. sæti, Noregur í 9. sæti) fyrir utan Ísland, sem er í 22. sæti, einu sæti fyrir ofan Bandaríkin. Þess má geta að Bandaríkin hafa hríðfallið á lista Forbes undanfarin ár, en árið 2006 voru Bandaríkin í efsta sæti listans. Ástæðan fyrir þeirri þróun er m.a. minna frelsi í peningamálum og utanríkisviðskiptum, íþyngjandi regluverk og vaxandi ríkisumsvif, einkum á húsnæðismarkaði og í tryggingamálum.

Í þremur neðstu sætum listans er að finna Haítí, Gambíu og Chad.