Tímaritið Economist hefur gefið Íslandi hæstu einkunn í árlegri glerþaksvísitölu sinni. Vísitalan tekur saman hlutfall kynjanna á vinnumarkaði og í stjórnum fyrirtækja, kynbundinn launamun og hlutfall kvenna á þingi. Þá er einnig tekið í reikninginn hversu langt fæðingarorlof konum býðst, auk þess sem hlutfall kvenna með háskólagráður er tekið inn í jöfnuna.

Athygli vekur að réttarfarsleg staða kvenna er ekki tekin til greina, né heldur er staða kynferðisbrota og kynbundins ofbeldis tekið með í reikninginn. Samantekt Economist tekur því aðeins aðstæður vinnumarkaðs og stjórnmála til greina og nauðsynlegt er að hafa það í huga við lestur samantektarinnar.

Af 100 mögulegum stigum er Ísland með 82,6 og er því hæst á listanum. Rétt á eftir Íslandi er Noregur með 79,3 og þar á eftir eru Svíþjóð og Finnland. Ungverjaland rekur svo lest þessara fimm efstu ríkja. Neðst á listanum er Suður-Kórea með aðeins 25 stig, næstneðst er Tyrkland og þar að ofan eru Japan, Sviss og Írland.

Samkvæmt gögnum Economist eru konur 44% sitjandi stjórnarmeðlima í stjórnum fyrirtækja, auk þess sem konur eru 41% þingmanna. Þó má Ísland heldur bæta stöðu kynbundins launamuns, en þar er þjóðin í fjórtánda sæti.