Orkuveita Reykjavíkur (OR) hagnaðist um tæplega 13,4 milljarða króna á síðasta ári. Þetta er margfalt betri rekstrarniðurstaða hjá samstæðunni en árið 2015 þegar hagnaðurinn nam 4,2 milljörðum. Raunar hefur reksturinn ekki gengið betur í mörg ár. Það þarf að fara aftur til ársins 2010 til að finna betra rekstrarár, en þá skilaði OR 13,7 milljarða króna hagnaði. Þó staða OR sé búin að styrkjast mun fyrirtækið ekki greiða eigendum arð að sinni.

Skuldastaða Orkuveitunnar batnaði verulega á milli ára. Um áramótin námu heildarskuldir 179 milljörðum króna, þar af voru 149,9 milljarða langtímaskuldir og 29,1 milljarða skammtímaskuldir.  Árið 2015 námu heildarskuldirnar 196,2 milljörðum. Hafa ber í huga að stór hluti skulda OR er í erlendri mynt. Krónan styrktist verulega á síðasta ári, sem útskýrir að töluverðu leyti bætta skuldastöðu fyrirtækisins.

Skuldastaða OR hefur stórlagast á síðustu árum. Ef nettó skuldir eru skoðaðar, þá námu þær  127,7 milljörðum króna í loks árs 2016 samanborið við 150,3 milljarða árið 2015 og 226,4 milljarða árið 2009.

90 milljónir frá ON

Þegar skipting hagnaðar árið 2016 er skoðuð eftir dótturfélögum og öðru kemur í ljós að þorra hagnaðarins má rekja til veitna eða 6,9 milljarða króna.  Þetta er veiturekstur samstæðunnar í köldu vatni, dreifingu rafmagns og fráveitu. Tvö dótturfélög sinna þessum rekstri en það eru Veitur ohf. og OR vatns- og fráveita sf. Hagnaður af því sem kallað er „önnur starfsemi", sem er í raun rekstur móðurfyrirtækisins sjálfs og Gagnaveitu Reykjavíkur, nam 4,5 milljörðum. Alls varð 1,8 milljarða hagnaður af „jöfnunarfærslum".

Hlutdeild Orku náttúrunnar (ON)  í hagnaði OR samstæðunnar var lítil. Hagnaðurinn nam einungis 90 milljónum króna, samanborið við um 1,9 milljarða króna árið 2015 og um 2,6 milljarða árið 2014. ON er dótturfélag OR, sem sér um framleiðslu og sölu á rafmagni og heitu vatni til almennings og stóriðju.

Það er áhugavert hvað hlutdeild ON í hagnaði OR samstæðunnar er lítil. Um síðustu áramót var endurmetið bókfært verð framleiðslukerfisins 135,6 milljarðar króna en ári áður var það 153,3 milljarðar. Endurmetið bókfært verð veitukerfisins var 126,5 milljarðar króna um síðustu áramót en var 122,8 milljarðar ári áður.

Orkuveita Reykavíkur
Orkuveita Reykavíkur

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .