Margt hefur gerst í rekstri Toyota á Íslandi frá því að Úlfar Steindórsson tók við sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins árið 2005. Efnahagshrunið var öllum söluaðilum bifreiða erfitt en nú eru bjartir tímar framundan í rekstrinum að hans sögn.

Hvernig stendur reksturinn hjá Toyota á Íslandi um þessar mundir? Í ársreikningi ykkar fyrir árið 2014 sést að mestur hluti hagnaðar ykkar á því ári var vegna lánaleiðréttingar og eiginfjárhlutfall ykkar er í kringum 6%. Hefur þessi staða breyst?

„Já, mjög mikið. Við erum ekki komin með endanlega niðurstöðu á reikningnum fyrir árið 2015. Síðasta ár var mjög gott og langbesta árið okkar frá hruni, það þarf enginn að efast um það. Eiginfjárhlutfallið er núna einhvers staðar á milli 16 og 18%. Það er gríðarlega mikil breyting á einu ári. Auðvitað hefur efnahagsreikningurinn stækkað mikið líka út af meiri umsvifum en eiginfjárhlutfallið hefur hækkað mjög mikið. Við sjáum ekki annað en að það muni hækka meira á þessu ári. Janúar var strax góður og framhaldið lítur vel út.“

Er þetta samspil aukinnar sölu og breyttra áherslna í rekstri sem er hér að verki?

„Stærsti hlutinn af þessu skilar sér með aukinni sölu. Það byggir á því að við þurfum að uppfylla ákveðnar kröfur frá Toyota. Þá skiptir engu máli hvort við seljum 100 eða 10.000 bíla. Þú getur aldrei farið með kostnað nema niður í eitthvað ákveðið. Síðan þegar salan eykst þá vex kostnaðurinn ekki í hlutfalli við aukna veltu. Við seldum rúma 1.600 bíla árið 2014 og seldum um 2.500 bíla á síðasta ári. Það breytist ekkert mikið kostnaðurinn á þessum tíma. Þessu til viðbótar er aukning í varahlutasölu hjá okkur sem snýr að hluta til vegna þess að bílar eru að eldast. Síðan var töluverð aukning hjá okkur í sölu á aukahlutum einfaldlega vegna þess að við lögðum meiri áherslu á það.“

Nánar er rætt við Úlfar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .