Árið 2018 var besta rekstrarár í sögu Skeljungs, að því er segir í nýbirtu ársuppgjöri félagsins. Hagnaður ársins 2018 nam 1.573 milljónum króna og hækkaði um 37,6% frá fyrra ári, en í uppgjörinu kemur fram að hagnaður félagsins hafi aldrei verið hærri. Hagnaður á hvern hlut var 0,76 og hækkaði um 40% milli ára.

Framlegð ársins nam 7.809 milljónum króna og hækkaði um 8,7% frá fyrra ári. Framlegð síðasta ársfjórðungs 2018 nam 1.844 milljónum króna og hækkaði um 14,3% milli ára.

EBITDA ársins, sem hefur aldrei verið hærri, nam 3.261 milljónum króna og hækkaði um 24,6% milli ára. EBITDA í fjórðungnum nam 360 milljónum króna og jókst um 38,1% frá sama tímabili í fyrra. Einskiptis rekstrarhagnaður nam 103 milljónum króna á árinu. EBITDA framlegð ársins 2018 var 41,8% en 36,4% árinu áður.

Arðsemi eigin fjár var 19,0% samanborið við 15,0% á árinu 2017. Á lokadegi síðasta árs nam eigið fé 9.004 milljónum króna og eiginfjárhlutfall var 36,4% í árslok Félagið áætlar að EBITDA ársins 2019 verði á bilinu 3.000 – 3.200 milljónir króna og fjárfestingar liggi á bilinu 800 – 900 milljónir króna.

Skeljungur segir í tilkynningu sem send var með uppgjörinu, að góð afkoma byggist fyrst og fremst á sterkum kjarnaresktri, bæði á Íslandi og í Færeyjum. Stjórnendur telji að skipulags- og rekstrarbreytingar sem ráðist var í haustið 2017 og fylgt eftir 2018 hafi skilað tilætluðum árangri. Reksturinn sé nú söludrifnari, skilvirkari og hagkvæmari.

Þá segir jafnframt að samkvæmt samþykktri arðgreiðslustefnu félagsins sé stefnt að því að greiða árlega til hluthafa 30-50% af hagnaði í formi arðgreiðslu eða endurkaupa á hlutum. Á fundi sínum í dag hafi stjórn félagsins ákveðið að leggja fram á aðalfundi þann 26. mars 2019 tillögu um endurkaup á eigin hlutum sem nemur allt að 550 milljónum króna að markaðsvirði (35% af hagnaði).

„Staða Skeljungs sterk“

„Ástæður þessa góða árangurs eru margar. Í fyrsta lagi ber að nefna samstilltan hóp öflugs starfsfólks, sem hefur skilað frábæru starfi og var fljótt að laga sig að breyttum aðstæðum eftir skipulagsbreytingarnar sem gerðar voru í lok árs 2017. Þær höfðu umtalsverð jákvæð áhrif á rekstur félagsins á árinu 2018 og munu gera það áfram. Félagið naut góðs af góðu efnahagsástandi á Íslandi og Færeyjum, háu atvinnustigi og sívaxandi kaupmætti.

Við sáum umtalsverðan vöxt í sölu á eldsneyti til erlendra skipa á norðanverðu Atlantshafinu, bæði í gegnum okkar eigin birgðastöðvar í Færeyjum og Íslandi og með samningum um aðgang að stöðvum annarra söluaðila á svæðinu. Þá hefur náið samstarf innan samstæðunnar leitt til aukinnar hagkvæmni, þar sem reynsla og þekking á öðru markaðssvæðinu nýtist á hinu. Við höfum í mörgum tilvikum samræmt vinnulag milli landa og nýtt betur innviði samstæðunnar. Við ætlum okkur að halda því áfram á komandi árum og ná enn meiri samlegð. Þá gefur ársreikningurinn til kynna að sú ákvörðun hafi verið rétt að einfalda þjónustuframboð félagsins á Íslandi, fækka vörumerkjum og leggja megináherslu á lágt verð undir merkjum Orkunnar. Við ætlum okkar að taka fleiri skref í þá átt og erum að ljúka stefnuvinnu fyrir nýtt smásölu-módel til að spara viðskiptavinum tíma og peninga.

Staða Skeljungs er sterk og við sjáum fram á áframhaldandi heilbrigðan rekstur næstu árin. Ef horft er til lengri framtíðar er ljóst að markaðurinn mun breytast og við ætlum að nýta vel þau tækifæri sem skapast með því. Við ætlum ekki að verða áhorfendur að þeim breytingum, heldur virkir þátttakendur svo hagsmunir hluthafa verði tryggðir til langrar framtíðar. Við höfum þegar lagt drög að framtíðarstefnu Skeljungs og munum á þessu ári halda þeirri vinnu áfram. Ég er sannfærður um að gott jafnvægi milli núverandi reksturs og vel unnin framtíðaráforma sé lykillinn að bjartri framtíð Skeljungs," ef haft eftir Hendrik Egholm, forstjóra Skeljungs, í uppgjörstilkynningunni.