Keflavíkurflugvöllur var valinn besti flugvöllur í Evrópu á síðastliðnu ári í þjónustukönnun meðal farþega sem framkvæmd er á öllum helstu flugvöllum um allan heim. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Isavia.

Könnuninni er gerð á vegum alþjóðasamtaka flugvalla, Airports Council International, og svara farþegar spurningum ársfjórðungslega  um gæði fjölmargra þjónustuþátta. Flugvellir sem fá hæstu heildarniðurstöðu ársins hljóta sérstaka viðurkenningu samtakanna. Þetta er í þriðja sinn sem Keflavíkurflugvöllur hefur hlotið viðurkenningu frá samtökunum. Árið 2009 var flugvöllurinn í efsta sæti í Evrópu og árið 2011 besti flugvöllur í Evrópu með færri en tvær milljónir farþega. Þá var flugvöllurinn valinn á heiðurslista samtakanna árið 2014 fyrir samfelldan árangur í þjónustukönnunum frá árinu 2008.

Þjónustukönnunin mælir fjölmarga þætti sem snerta, t.d.  kurteisi og hjálpsemi starfsfólks, þægindi við tengiflug, notalegt andrúmslofti og hreinlæti. Einnig er spurt um ánægju með afgreiðslu farangurs, aðgengi að farangurskerrum, bankaþjónustu og veitingastaði svo eitthvað sé nefnt. Næst á eftir Keflavíkurflugvelli í flokki evrópskra flugvalla eru Sheremetyevo í Moskvu, Porto í Portúgal og Möltuflugvöllur.

Hér má finna nánari upplýsingar um viðurkenninguna.