Framboð hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu jókst um 21% frá árinu 2009 til 2014 og nýtingin jókst úr 58% í 84%. Á sama tíma fjölgaði ferðamönnum til landsins um 109%. Þetta kemur fram í úttekt greiningardeildar Arion banka á ferðaþjónustunni.

Höfuðborgarsvæðið vermdi fimmta sætið á lista yfir nýtingu hótelherbergja árið 2013 en fór á topp listans í fyrra með 84% nýtingu að jafnaði yfir árið. Árið 2014 var verð á hótelgistingu undir meðallagi samanborið við valdar evrópskar borgir.

Að meðaltali kostaði hótelgisting 104 evrur á höfuðborgarsvæðinu samanborið við 252 evrur í París, sem er dýrasta borgin í þessu tilliti. Hafa verður í huga að á hérlendis eru ekki enn til 5 stjörnu hótel.