„Staða fjármálafræðslu á Íslandi mætti vera talsvert betri. Við komum ekkert sérstaklega vel út úr könnunum á fjármálalæsi í al- þjóðlegum samanburði og það er áhyggjuefni, sérstaklega eftir því sem fjármálaumhverfið verður flóknara.“

Þetta segir Gylfi Magnússon, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Getu Íslendinga til að lesa, greina, stjórna og fjalla um fjármálalega þætti sem hafa áhrif á eigin efnahagslega velferð er ábótavant og staða fjármálafræðslu í landinu er bág.

„Þar sem ég starfa í menntakerfinu blasir þetta við mér þannig að kennsla í fjármálum, viðskiptafræði og hagfræði er mjög takmörkuð. Einn stærsti hópur nemenda í deildinni okkar er fólk sem hefur lokið háskólanámi í öðrum greinum en taldi þörf á því að bæta við sig viðskiptalegri þekkingu. Það fór út á vinnumarkaðinn að námi loknu og komst að því að það þurfti að fást við fjárhagslegar upplýsingar á nánast hverjum degi án þess að hafa fengið formlega þjálfun í því.

Margir fara þannig í gegnum menntakerfið án þess að fá almennilega fræðslu um t.d. kaup á fyrstu fasteign, lífeyriskerfið og daglegar neysluákvarðanir, sparnað eða smálán,“ segir Gylfi, en það hefur afleiðingar í för með sér fyrir hagkerfið í heild sinni.

Veldur samfélagslegri sóun

Gylfi segir vöntun á menntun í fjármálalæsi hafa neikvæð áhrif á hagkerfið, fjármálastöðugleika og velferð einstaklingsins.

„Allir fjárhagslega sjálfstæðir einstaklingar sem huga að neyslu, sparnaði, fjárfestingum og lántökum þurfa að vera læsir á fjármál og heimilisbókhald til þess að taka upplýstar ákvarðanir um sín viðskipti. Að geta lesið fjármál gerir einstaklinga hæfari til að greina og stjórna eigin fjármálum, greina valkosti og áhættu þeirra, taka hagkvæmar fjárhagslegar ákvarðanir og gera fjármálaáætlanir fyrir framtíðina.

Að sama skapi getur skortur á fjármálalæsi leitt til þess að einstaklingar taka „rangar“ ákvarðanir í þeim skilningi að þeim getur fylgt talsverður kostnaður, sem hefur neikvæð áhrif á lífskjör einstaklingsins. Ef skorturinn er almennur í samfélaginu getur það leitt til óhagkvæmni og glataðs ábata í hagkerfinu, þó það sé nánast ómögulegt að meta áhrifin til fjár,“ segir Gylfi.

„Þar að auki veldur vaxandi vöru- og þjónustuframboð í fjármálakerfinu því að fjármálaumhverfið er sífellt að verða flóknara. Ef einstaklingar eru ófærir um að greina þessa valkosti með fullnægjandi hætti, þá gæti það jafnvel dregið úr stöðugleika í fjármálakerfinu.“

Menntakerfið ber ábyrgð

Menntun og betri skilningur á fjármálum og bókhaldi myndi án efa draga úr þessum vanda, en hver ber ábyrgð á því?

Nánar er fjallað um málið í Fjármálalæsi , sérblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .