Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Betware hefur í samvinnu við erlendan samstarfsaðila, Prima Networks Limited, skrifað undir samning um að selja danska lottóinu, Danske Spil, hugbúnaðarlausnir sem gera Dönum mögulegt að spila bingó og aðra afþreyingaleiki á netinu. Betware var í samvinnu við Prima Networks Limited valið að undangengnu opnu útboðsferli.

Í tilkynningun er haft eftir Søren Kofoed Weeke, framkvæmdastjóra Danske Spil, að með samningnum hafi lottóið valið rétta þjónustuaðilann til að hjálpa til við að þróa vöru Danske Spil og skapa nýja og spennandi upplifun fyrir viðskiptavini þess.

Betware mun selja danska lottóinu hugbúnaðarlausnir sem gera því kleift að bjóða bingó- og afþreyingarleiki frá Microgaming á danska markaðinum.

Í tilkynningunni er einnig haft eftir Stefáni Hrafnkelssyni, framkvæmdastjóri Betware, að hann sé afar stoltur af því að Betware hafi í samvinnu við Prima Networks Limited hreppt samninginn við Danske Spil um bingó- og afþreyingaleiki. Þetta sanni leiðandi stöðu Betware og Prima Networks Limited á leikjamarkaðnum.