Jeff Bezos, forstjóri og stofnandi Amazon, er nú steinsnar frá því að ná Bill Gates sem ríkasti maður í heimi. Eða, að minnsta kosti á mælikvarða milljarðamæringa. Auðævi Bill Gates eru nú metin á 89,7 milljarða dollara og hefur hagur hans vænkast um 7,34 milljarða á árinu. Aftur á móti hefur hagur Bezos vænkast um 19,3 milljarða, bara á þessu ári og tæpa 2 milljarða dollara á síðustu dögum. Hægt er að kynna sér stöðu milljarðamæringa heimsins á lista Bloomberg fyrir áhugasama.

Auðæfi Bezos eru metin á 84,6 milljarða dollara og er hann því „einungis“ 5 milljörðum dollara frá því að vera ríkasti maður í heimi. Ástæðan fyrir góðu gengi Bezos er að hlutabréfaverð Amazon hefur hækkað umtalsvert eftir að fyrirtækið tilkynnti að það ætlaði að kaupa Whole Foods dagvörukeðjuna.

Enn fremur þá er mikill munur á hegðun þeirra Bezos og Gates. Bill Gates hefur á síðastliðnum árum eytt meiri tíma í að gefa fé til góðgerðamála, en Bezos, hefur lagt mesta áherslu á að stækka Amazon. Bill Gates hefur jafnframt lofað því að gefa frá sér helminginn af auðæfum sínum. Hann á þó enn 2% hlut í Microsoft, svo að hann gæti enn haldið áfram að auðgast.