Jeff Bezos, stofnandi og forstjóri netverslunarrisans Amazon hefur sett á laggirnar góðgerðarsjóð og nemur fyrsta innlögn hans í sjóðinn tveimur milljörðum dollara. Þessu greindi Bezos frá í færslu á Twitter síðu sinni fyrr í dag. BBC greinir frá. Sjóðurinn sem kallast Bezos Day One Fund mun leggja áherslu á aðstoð við heimilislausra auk þess að fjármagna skólaverkefni á lágtekjusvæðum.

Bezos sem er ríkasti maður heims, metinn á um 164 milljarða dollara hefur verið gagnrýndur að undanförnu fyrir að gefa ekki meira af auðæfum sínum til góðgerðamála. Þrátt fyrir að tveir milljarðar dollara séu háar upphæðir eru þær lítið í samanburði við það sem menn á borð við Bill Gates og Warren Buffett hafa gefið af sínum auðæfum en hvort um sig hafa gefið yfir 30 milljarða dollara til góðgerðamála. Þá hefur Mark Zuckerberg gefið það út að hann muni gefa 99% af hlutabréfum sínum í Facebook til góðgerðamála yfir líftíma sinn.