Bandalag háskólamanna telur að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafi framkvæmt verkfallsbrot með því að gefa út tvö leyfi vegna árshátíðar og afmælis Kópavogsbæjar. Um er að ræða tímabundið tækifæris- og áfengisleyfi laugardaginn 9. maí í tilefni af árshátíð starfsmanna Kópavogsbæjar en hins vegar tækifærisleyfi vegna stórafmælis Kópavogs hinn 10. maí næstkomandi.

Í tilkynningu frá BHM kemur fram að sýslumaðurinn hafi sent undanþágunefnd samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna beiðni um undanþágu frá verkfallinu. Í tilkynningunni segir að undanþágunefnd sé heimilt að veita undanþágur til að afstýra neyðarástandi. Nefndin hafi hins vegar ekki talið að það skilyrði væri fyrir hendi, hvorki í tilfelli áfengisleyfis á árshátið Kópavogs né afmælis daginn eftir.

Starfsmenn sem eru í verkfalli voru því ekki kallaðir til, en sýslumaðurinn sjálfur mun hafa veitt starfsmönnum Kópavogsbæjar náð og gefið út leyfið sjálfur.

Sýslumaður gengur gegn nefndinni

„Þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu gaf sýslumaður sjálfur út leyfisbréf fyrir báða framangreinda viðburði daginn eftir að honum var birt niðurstaða undanþágunefndarinnar. Í þessu samhengi er jafnframt bent á að í yfirlýsingu frá embætti sem birt er á heimasíðu sýslumannsembættanna kemur fram að tekið sé við umsóknum um gisti- og veitingaleyfi en hvorki  séu ný leyfi gefin út né gildandi leyfi endurnýjuð," segir í tilkynningu frá BHM.