Barátta FRÍSK, Félags rétthafa í sjónvarpi og kvikmyndagerð, gegn ólögmætri dreifingu á höfundarvörðu efni er eilífðarverkefni sem snýst um að lágmarka skaðann. Sýkna héraðsdóms yfir mönnum sem sakaðir voru um milligöngu á svokallaðri IPTV áskrift mun ekki hafa mikil áhrif segir Hallgrímur Kristinsson, formaður félagsins.

„Það er auðvitað mikil vonbrigði að þetta hafi endað svona. Okkur sýnist rauði þráðurinn hjá héraðsdómi liggja í galla á verknaðarlýsingu ákæru saksóknara og að málið hafi ekki verið rannsakað nægilega," segir Hallgrímur um lyktir sakamálsins.

Upphaf þess má rekja til kæru FRÍSK til lögreglu á hendur forsvarsmönnum Facebook-síðunnar „IPTV sjónvarp". Ákæruvaldið höfðaði sakamál á hendur þeim þar sem þeim var gert að sök að hafa selt og afhent aðgangskassa auk þess að bjóða upp á aðstoð við uppsetningu þeirra og milligöngu við að koma viðskiptavinum í ólögmæta áskrift hjá streymisveitum. Mennirnir voru sýknaðir þar sem ákæruvaldið þótti ekki hafa sannað að þeir hefðu komið að uppsetningu kassanna eða aðstoðað við að tengja viðskiptavini sína við ólögmætar efnisveitur.

„Þetta er vissulega óheppilegt en þetta þýðir ekki að við munum láta háttsemi sem þessa óátalda. Fyrir okkur er ljóst að þeir höfðu haft milligöngu um áskriftina enda varð hún óvirk þegar greiðsla hætti að berast þeim og það staðfest af vitnum fyrir dómi," segir Hallgrímur.

Á síðasta ári var sagt frá því að sýslumaður hefði, að beiðni FRÍSK, lagt lögbann á starfsemi IPTV Iceland. Staðfestingarmál vegna þess lögbanns er nú til meðferðar fyrir dómstólum og styttist í niðurstöðu þess. Hallgrímur segir að þar sé á ferðinni ákveðið prófmál.

„Það eru aðilar sem selja slík box undir þeim merkjum að með þeim fái viðskiptavinurinn aðgang að erlendu streymi sem þeir hafa engin réttindi fyrir. Þar er ekki aðeins um streymi að stöðvum að ræða heldur einnig kolólöglegar VOD-leigur sem bjóða upp á myndir sem sumar eru enn í kvikmyndahúsum," segir formaðurinn. Verði niðurstaða dómstóla sú að staðfesta lögbannið má búast við því að félagið leggi fram sambærilega kröfu á hendur öðrum aðilum sem bjóða upp á sömu þjónustu.

Árið 2016 vann Capacent greiningu á tjóninu sem ólögmætt streymi og niðurhald veldur hér á landi en það var metið 1,1 milljarður á ársgrundvelli. „Staðan hefur breyst síðan þá enda aðgengi að lögmætu efni aukist til muna. Vísbendingar eru um að fólk sæki nú í færri ólögleg eintök," segir Hallgrímur.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Pálmi Jónsson hefur fest kaup á Emmessís og tekur hann við sem framkvæmdastjóri félagsins.
  • Rætt er við forstjóra Kauphallarinnar og framkvæmdastjóra Heimavalla vegna ákvörðunar um að synja afskráningu leigufélagsins úr Kauphöllinni.
  • Nýtt eignrhald á Farice gæti skapað tækifæri.
  • Úttekt á hlutabréfamarkaði, en Úrvalsvísitalan hefur hækkað mikið frá áramótum þrátt fyrir kólnun hagkerfisins.
  • Forstjóri Símans svarar fullyrðingum og tilboði framkvæmdastjóra Gagnaveitu Reykjavíkur.
  • Fjallað er um ævintýralega sögu gjaldþrota félags frá Akureyri.
  • Nýr viðskiptastjóri hjá H:N Markaðssamskiptum er tekin tali.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um innflutning á fersku kjöti.
  • Óðinn skrifar um kjarasamninga og hagvaxtarhorfur.