Önnur lönd bíða í röðum eftir því að undirrita fríverslunarsamninga við Bretland, eftir að landið yfirgefur Evrópusambandið, eitt skipti fyrir öll. Þetta tekur Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands fram í aðsendri grein í breska dagblaðið Daily Telegraph .

Utanríkisráðherrann lagði jafnframt áherslu á það að Bretar væru ekki að draga upp vindubrúnna, þrátt fyrir að Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hafi lofað harðari innflytjendalöggjöf.

Í greininni, skrifar Boris Johnson, að Bretland yrði ekki lengur hluti af innri markaðnum, bundin af tollabandalaginu ESB og þurfa ekki lengur sætta sig við það að framkvæmdaráð ESB stjórni fríverslun Breta. „Þetta þýðir að við getum gert nýja fríverslunarsamninga við ríki hvaðanæva úr heiminum. Þau bíða nú þegar í röðum,“ skrifar utanríkisráðherrann.

Guðlaugur Þór fagnar fríverslun við Breta

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands, sagði í kvöldfréttum RÚV í gær að það væri mikið fagnaðarefni að Bretar vilji frjálsa verslun við fleiri en ESB. Hann sagði það jafnframt mikið forgangsmál að tryggja hindrunarlaus viðskipti milli landanna tveggja.

Utanríkisráðherra Íslands er bjartsýnn á það að Ísland geti átt í blómlegu viðskiptasambandi við Breta. „Það sem að okkur snýr er þetta að nú eru Bretar að fara úr tollabandalaginu og það er algert forgangsmál að við sjáum til þess að tryggja hagsmuni okkar,“ er haft eftir Guðlaugi.