Skúli Mogensen hefur undanfarna daga verið í Evrópu að kynna skuldabréfaútboð WOW air. Eins og fram hefur komið þá hyggst flugfélagið sækja sér 500 til 1.000 milljónir sænskra króna (6 til 12 milljarðar íslenskra króna) með útgáfu þriggja ára skuldabréfs. Á þetta að brúa fjármögnun fyrirtækisins næstu 18 til 24 mánuði en þá er stefnt að því að skrá WOW á markað. Samkvæmt fjárfestakynningu vegna skuldabréfaútboðsins er fjárhagsstaða WOW erfið eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um.

Kjörin á skuldabréfinu

Norska verðbréfafyrirtækið Pareto Securities mun hafa umsjón með útboðinu og hafa fulltrúar þess verið með Skúla í för. Viðskiptablaðið hefur heimildir fyrir því að þessa dagana sé verið að kynna skuldabréfaútgáfuna fyrir íslenskum fjárfestum eins og ríkisbönkunum tveimur, Íslandsbanka (Íslandssjóðum) og Landsbankanum (Landsbréfum), og lífeyrissjóðum. Heimildir blaðsins telja að það verði erfitt fyrir íslenska fjárfesta að taka þátt í útboðinu. Engar tryggingar séu lagðar að veði og áhættan því mikil. WOW air mun hins vegar leggja mikið upp úr því að fá íslenska fjárfesta, sérstaklega stofnanafjárfesta, því það auðveldar WOW að selja bréfið úti.

Erfitt er að meta hvaða kjör WOW mun fá í útboðinu en þó eru allir þeir sérfræðingar sem Viðskiptablaðið hefur rætt við sammála því að þau verða mun lakari en Icelandair fékk í sínu útboði í október 2016. Þá gaf félagið út 150 milljóna dollara skuldabréf. Pareto sá um þá útgáfu og voru kjörin 3. mánaða LIOBR (USD) + 3,5%, sem þýðir um 5,6 til 5,7%. Flugfélagið Norwegian, sem barðist í bökkum síðasta vetur, var með skráð skuldabréf og fór ávöxtunarkrafan um tíma upp í 18%. Þess má geta að eiginfjárhlutfall Norwegian er lágt og var um 7% í lok annars ársfjórðungs á meðan eiginfjárhlutfall WOW var 4,8%.

Hvað hugsanleg kjör á skuldabréfi WOW varðar þá telja þeir sérfræðingar sem Viðskiptablaðið hefur rætt við að vextirnir verði vel yfir 10% og jafnvel nær 15%. Ef skuldabréfaútboðið hjá WOW gengur vel og fyrirtækið fær 12 milljarða króna þá þýðir það að vextirnir verða 1,2 til 1,8 milljarðar á ári miðað við 10 til 15% vexti.

Leiðrétting: Upphaflega kom fram að skuldabréf WOW air yrði óskráð en hið rétta er að bréfið verður skrá hjá Nasdaq Stockholm og mögulega einnig í kauphöllinni í Frankfurt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .