*

föstudagur, 20. október 2017
Innlent 16. júlí 2012 14:50

Biðlar til stjórnvalda um að koma til móts við háskólann

Ósk Stúdentaráðs að Háskóli Íslands fái greitt að fullu fyrir alla þá nemendur sem skráðir eru við háskólann.

Ritstjórn
Haraldur Jónasson

Stúdentaráð Háskóla Íslands biðlar til stjórnvalda að koma til móts við Háskóla Íslands á þessum erfiðu tímum eins og það er orðað í tilkynningu frá ráðinu. Þar segir enn fremur að háskólinn hafi tekið á sig rúmlega 20 % niðurskurð frá árinu 2009 ásamt því að vera eini háskólinn sem fær ekki greitt með öllum þeim nemendum sem stunda nám við skólann.

Að mati ráðsins sé nú komið að því að í öllum deildum hefur verið skorið niður að þolmörkum og er þeim því  þegar sniðinn of þröngur stakkur. Það sé því ósk ráðsins að Háskóli Íslands fái greitt að fullu fyrir alla þá nemendur sem skráðir eru við háskólann líkt og raunin er hjá öllum öðrum háskólum landsins. Ef þetta sé ekki gert sé nokkuð ljóst að hann mun þurfa að setja sér strangar fjöldatakmarkanir fyrir næstu ár. Þetta mun leiða til verulegrar skerðingar á jafnrétti allra til náms að mati ráðsins.