„Grunsemdir mínar um víðtækt úrræðaleysi hafa vaxið til muna,“ segir Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar.

Hann sagði skýrslu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra bera það yfirbragð að starfshóparnir sem ráðherra ræddi um séu byrjaðir að starfa.

„Við þurfum að fá skýrari línur og sjá spilin eftir allt það sem á undan er gengið,“ sagði Guðmundur og lýsti eftir rökræðu um ástæðu þess hvers vegna aðildarviðræður við Evrópusambandið voru ekki kláraðar og hvaða leiðir verði farnar í stað aðildar.

Þá gagnrýndi Guðmundur Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra og sagði hann hafa misskilið tengsl veiðigjalda og fjárfestingaráætlunar fyrri ríkisstjórnar. Nýta hafi átt hluta af veiðigjaldi og arði af nýtingu náttúruauðlinda að hluta til fjárfestinga en hluta til niðurgreiðslu skulda. Þá hafi sá hluti sem átti að koma í kassann af arði fyrir nýtingu auðlinda átt á nota til að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf.

„Tíminn er að renna út fyrir þessa ríkisstjórn. Það slær mig eins og stefnan geti borið yfirskriftina „afsakið hlé.“ Ég vona heitt og innilega að útsendingin fari bráðlega að hefjast aftur,“ sagði Guðmundur.