Í vikunni mun Háskólinn á Bifröst bjóða til sölu stóran hluta af fasteignum sínum á skólasvæðinu auk reksturs Hótels Bifrastar. Rektor háskólans segir söluna skref í því að bæta fjárhagsstöðu skólans og gæða svæðið lífi. Allt að 239 herbergi eru til sölu sem gera hótelið að öllum líkindum að því stærsta á Vesturlandi.

Salan er m.a. tilkomin vegna þeirrar fækkunar sem orðið hefur á staðnámi hjá Háskólanum og er því ekki sama þörf og áður fyrir húsnæði á svæðinu. Auk þess hefur skólinn glímt við nokkur fjárhagsvandræði undanfarin ár og segir Vilhjálmur Egilsson, rektor háskólans, söluna skref í því að bæta fjárhagsstöðu hans og gæða svæðið lífi.

Fjárfestum stendur til boða að kaupa eignirnar í heild sinni eða að hluta en mestur gæti fjöldi herbergja orðið um 239, sem gerir hótelið að öllum líkindum það stærsta á Vesturlandi.

Mikil áhersla hefur verið lögð á uppbyggingu ferðaþjónustunnar á Vesturlandi og að sögn ráðgjafa Capacent, sem annast söluna, hafa þónokkrir lýst yfir áhuga á svæðinu. Áætlað verðmat á eignunum í heild auk rekstrarins er um 2.586 milljónir króna.

239 herbergi til sölu

Rekstrarerfiðleikar Háskólans á Bifröst endurspeglast í nýjasta ársreikningi félagsins sem er frá árinu 2015, en þar kemur fram að tap af rekstri skólans það árið hafi numið 55 milljónum auk þess sem eigið fé sjálfseignarfélagsins var neikvætt um 155 milljónir.

Endurfjármögnun skólans og betri horfur í rekstri ársins 2016 gerði skólanum hins vegar kleift að starfa áfram með eðlilegum hætti.

Unnið hefur verið að endurskipulagningu rekstursins undanfarin ár en í ársreikningnum kemur einnig fram að Háskólinn á Bifröst eigi allt hlutafé í fasteignafélögum þeim sem eigi og reki nemendagarða á Bifröst. Öll þessi félög hafi átt í rekstrarerfiðleikum og verið með neikvætt eigið fé.

Mikil fækkun hefur orðið í staðnámi við skólann og að sögn rektors, Vilhjálms Egilssonar, stunda nú um 80% nemenda fjarnám frá skólanum, enda miðar uppsetning námsins að því að nemendur geti nýtt sér þann möguleika. Afleiðingin er sú að nemendur hafa ekki sömu þörf og áður fyrir húsnæði á svæðinu og hefur skólinn því hagnýtt fasteignirnar með hótelrekstri frá árinu 2013.

Nú stendur fjárfestum til boða að kaupa hótelið, rekstur þess og hluta af öðrum fasteignum á svæðinu. Fasteignirnar eru í heild um 10.000 fm, um 139 herbergi og 48 íbúðir. Íbúðirnar 48 eru með 100 herbergjum samtals og eru herbergin í öllum fasteignunum því um 239 sem fjárfestum stendur til boða að kaupa í heild sinni eða að hluta.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.