Nýráðinn rekstrarstjóri hópbifreiða hjá Kynnisferðum – Reykjavík Excursion, Björn Ragnarsson, hefur nú yfirumsjón með rekstri um 160 hópbifreiða fyrirtækisins, en hann segir bíladelluna sem og reynsluna frá fyrra starfi hjá Bílabúð Benna, nýtast í starfinu.

„Jú, bílarnir verða bara svolítið stærri en maður hefur vanist, en við hjá Kynnisferðum erum með 120 rútur og auk 40 strætisvagna sem við keyrum í verktakasamningi fyrir Strætó BS,“ segir Björn en starfsemi fyrirtækisins er allan sólarhringinn, sjö daga vikunnar.

„Það er gríðarlegur akstur á þessum bílum, stór hluti af okkar viðskiptum er flugrútan svo við erum að sinna öllum sem koma í gegnum Keflavíkurflugvöll. Hjá Kynnisferðum starfa á sjötta hundrað starfsmenn svo við erum með vaktstjórn allan sólarhringinn.“

Að auki eru bifvélavirkjar að störfum allan sólarhinginn í nýju 7 þúsund fermetra húsnæði fyrirtækisins í Klettagörðum.

„Yfir vetrarmánuðina erum við með á milli 80 til 90 bíla í keyrslu á hverjum tíma, bæði stærri rútur sem keyra í dagsferðir og norðurljósaferðirnar og svo minni bíla sem sinna hinum fjölmörgum gististöðum í borginni,“ segir Björn.

„Svo erum við með okkar eigin þvottavél í húsinu, sem er í gangi meira og minna allan sólarhringinn að þvo flotann.“
Björn er giftur og á hann fjögur börn, þar af þrjú með núverandi eiginkonu sinni, en þau eru á aldrinum 6 til 11 ára.

„Þannig að það er fjör á heimilinu og svo á ég tvítugan strák. Auk þess er ekki nóg með að ég skipti um starf heldur er ég líka að skipta um húsnæði, við erum að flytja okkur til hérna innan Seljahverfisins, þannig að það er nóg að gera við að græja nýtt hús og koma sér svo inn í starfið,“ segir Björn sem reynir að ferðast töluvert með fjölskyldunni í frítíma sínum.

„Við förum í útilegu á sumrin með fellihýsi, Vestfirðirnir eru mjög skemmtilegt svæði og svo er alltaf gaman að koma á Austfirðina

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .