María Jóna Magnúsdóttir sem nýlega tók við sem framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins eins og Viðskiptablaðið fjallaði um , segir að sú minnkandi bílasala sem fjallað var um í morgun sé langt því frá vegna þess að allir séu farnir að hjóla.„Síðasta ár var náttúrulega einstaklega gott og stærsta árið í sölu á bílum frá upphafi vega hér á landi,“ bendir María Jóna á.

„Það held ég hafi bara haft þau áhrif að markaðurinn er aðeins að mettast, en bæði sala á bílum til einstaklinga og bílaleigubíla er að hægja á sér. Það voru ansi margir bílar sem fóru á markaðinn í fyrra og kannski eru margir því nýlega búnir að skipta og svo er umræðan í þjóðfélaginu aðeins á þá vegu að það séu blikur á lofti og því er almenningur mögulega aðeins að hugsa sinn gang.“

Bílaleigur keyptu 1.500 færri bíla í ár en á sama tíma í fyrra

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrr í dag telur Úlfar Steindórsson forstjóri Toyota á Íslandi að minnkunin sé fyrst og fremst vegna minni sölu bílaleigubíla en hann segir söluna enn mjög góða hjá fyrirtækinu til einstaklinga og annarra fyrirtækja.

„Ef við tökum alla sex mánuði þessa árs saman þá voru þetta 11.883 bílar sem seldir voru í heildina. Janúar var mjög góður og tiltölulega stór, en svo hefur salan jafnt og þétt flesta hina mánuðina verið að minnka frá síðasta ári,“ segir María sem tekur undir með Úlfari að salan minnki meira til bílaleiga.

„Á þessu ári nam salan til almennings 52,5% á móti 46,5% til bílaleiganna, en ef við tökum sama tímabil árið 2017, þá var almenningur með 47,4% og bílaleigurnar með um 51,6%,“ segir María en segir að þessar hlutfallstölur segi þó ekki alla söguna.

„Minnkunin á milli ára fyrir þessa fyrstu sex mánuði hvors árs er einungis 248 bílar til einstaklinga, eða úr 6.481 bíl í 6.233, meðan minnkunin til bílaleiga er 1.533 bílar. Bílarnir sem bílaleigurnar kaupa fækkaði úr 7.058 í 5.525.“