Breytingar á umferðarlögum munu heimila sveitarfélögum gjaldtöku á bílastæðum utan þéttbýlis, en í dag er það einungis heimilt í kaupstöðum eða kauptúnum.

Nær breytingin einnig til gjaldtöku á landsvæðum í eigu ríkisins sem verður einnig heimil ef frumvarpið verður að lögum.

„Vegna aukins fjölda ferðamanna er talið brýnt að koma upp bílastæðum við vinsæla ferðamannastaði og veita þar ákveðna þjónustu svo sem bílastæðavörslu og salernisaðstöðu,“ segir í frétt Innanríkisráðuneytisins um málið.

„Þannig er í breytingunni lagt til að sveitarstjórnum verði heimilt að setja reglur um gjaldtöku í þessu skyni og ráðherra verði heimilað að ákveða slíkt gjald með reglugerð á svæðum í eigu ríkisins.“

Verður hægt að senda umsagnir um frumvarpsdrögin til og með 5. desember á netfangið [email protected]