Þjóðskrá Íslands hefur birt tölur um verð á fjölbýli í hverfum á höfuðborgarsvæðinu árið 2016. Í fyrra var hæsta meðalfermetraverð á höfuðborgarsvæínu 469 þúsund krónur í miðborg Reykjavíkur og það lægsta 275 þúsund krónur í Vöngum í Hafnafirði. Það er rúmlega 70% munur sem er svipað og 2015. Þetta kemur fram í greiningu Landsbankans.

„Fermetraverðið hæst í miðborginni árið 2016 var um 7% hærra en næsta hæsta hverfið. Árið áður var miðborgin rúmlega 11% hærri en næsta hverfi og 14% árið þar á undan. Sé litið á næst hæstu hverfi eru Sjáland í Garðabæ, Seltjarnarnes og miðlæg svæði í Reykjavík líka hlutfallslega hærra verðlögð,“ segir í greiningunni.

Þó tekur greiningardeild Landsbankans fram að í samanburði sem þessum ber að hafa ýmsa fyrirvara í huga. „Tölurnar byggja á viðskiptum hvers árs fyrir sig og því er einungis verið að mæla það húsnæði sem viðskipti fara fram með og tölurnar sýna meðalverð ársins.“

Verðmunur á ódýrustu og dýrustu hverfunum

Í Hagsjánni er bent á að verðmunur milli ódýrustu og dýrustu hverfanna jókst talsvert frá 2003 til 2006. Munurinn minnkaði svo aftur til ársins 2008 en tók svo að vaxa á ný og var árið 2014 meira verðbil en nokkru sinni fyrr.

Á árinu 2015 dró svo aftur saman með dýrsta og ódýrasta hverfi og var sá munur nær óbreyttur í fyrra. Bendir greiningardeildin einnig á það að hækkun á miðsvæðum í Reykjavík, til dæmis í miðborginni, sé minni en víða annars staðar.

„Sé litið á hækkunina á milli áranna 2015 og 2016 sést að dýru hverfin hækkuðu ekki mest. Þar er Seltjarnarnes þó alger undantekning, en verð hækkaði langmest þar á síðasta ári. Meðalhækkun þeirra hverfa á höfuðborgarsvæðinu sem Þjóðskrá birtir upplýsingar um var um 11% á milli 2015 og 2016, en meðalhækkun fjölbýlis á öllu svæðinu var um 12%. Tölurnar hér sýna að verðhækkun í miðborginni er nokkuð í takt við þá tölu. Af dýrari hverfum hækka Seltjarnarnes, Teigar og Tún og Grandar meira en miðborgin. Á milli áranna 2015 og 2016 hækkaði verð mest í Húsahverfi, um 25%. Minnstu hækkanirnar 2016 voru í Kórum, Hvörfum og Þingum, rúmt 1%, og í Húsahverfi, um tæp 2%,“ segir í greiningunni.

Þróunin hefur stöðvast

Sú þróun undanfarinna ára að verðmunur á milli dýrustu og ódýrustu hverfa aukist virðist hafa stöðvast. Það skýrist líklega af mikilli umframeftirspurn í miðborginni hafi aukið möguleika á sölu í minna miðlægum hverfum meira en öðrum hverfum.

„Þá hefur fasteignaverð hækkað mikið undanfarin misseri og væntanlega er fólk farið að hugsa meira um hvar mest fæst fyrir peningana. Hér skiptir einnig máli að þjóðin er fremur ung og fyrstu kaupendur hafa tæplega efni á öðru en að fara út á jaðra höfuðborgarsvæðisins. Þá kann tiltölulega lágt bensínverð undanfarin misseri að hafa haft áhrif á búsetuákvarðanir fólks m.t.t. ferðakostnaðar til og frá vinnu,“ er tekið fram.