Í viðtali við Financial Times segir Bill Gates að beiðni Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI) um aðstoð Apple við aflæsingu síma San Bernardino-hryðjuverkamannsins sé meira en réttlætanleg.

Gates finnst sjálfsagt að Apple ætti að aðstoða FBI við málið þar eð ekki er verið að biðja um neinar bakdyr á símann heldur aðeins innlit í þessu eina tiltekna máli. Því sé það ekki frábrugðið því að símfyrirtæki veiti löggæslustofnunum aðgang að gögnum sínum.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um fyrir stuttu snýst málið um það að hryðjuverkamaðurinn sem ásamt konu sinni myrti 14 manns í San Bernardino í Kaliforníu átti iPhone-snjallsíma sem kann að innihalda mikilvæg gögn fyrir rannsókn málsins.

FBI vildi fá hjálp Apple við að komast fram hjá sérstakri stillingu á símanum sem gerir það að verkum að ef rangt er giskað á lykilorð hans tíu sinnum í röð eyðir hann sjálfkrafa öllum gögnum sem á hann eru vistuð.

Síminn er af gerðinni 5c sem þýðir að ómögulegt er að aflæsa honum með fingrafari morðingjans. Eini aðgangur FBI að upplýsingunum væri þá gegnum svokallaða ‘brute-force’ árás þar sem allir mögulegir aðgangskóðar eru prófaðir - en 10 tilrauna reglan kemur í veg fyrir það.