Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur skipað Eirík Jónsson prófessor við Háskóla Íslands sem formann nefndar um umbætur á löggjöf um tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsi. Meðal annarra í nefndinni er Birgitta Jónsdóttir fyrrverandi þingmaður og kafteinn Pírata.

Á nefndin að fara yfir lagafrumvörp stýrihóps um að Ísland skapi sér lagalega sérstöðu um vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis  og um upplýsingalögin eins og þau eru nú. Þar eru undir frumvörp um ærumeiðingar, hatursáróður, gagnageymd og ábyrgð hýsingaraðila sem og núverandi lög um heimildir til að beita fyrirfarandi tálmunum við tjáningu svo sem í formi lögbanns.

Á nefndin einnig að taka til skoðunar tillögur um tjáningarfrelsi sem og skyldu opinberra starfsmanna til að tjá sig um brot sem þeir verða áskynja í starfi að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins .

Nefndina skipa:

  • Eiríkur Jónsson prófessor, formaður
  • Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, varaformaður
  • Birgitta Jónsdóttir, stjórnarformaður International Modern Media Initiative (IMMI)
  • Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands
  • Sigríður Rut Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður
  • Elísabet Gísladóttir, lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu
  • Þröstur Freyr Gylfason, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu
  • Elísabet Pétursdóttir, lögfræðingur í mennta og menningarmálaráðuneytinu