Framíköll og bægslagangur hafa einkennt umræður á Alþingi í morgun eftir að Birgitta Jónsdóttir og Jón Gunnarsson rifust um Björk Guðmundsdóttur og manngæði Jóns sjálfs.

Þurfti nánast að leita áfallahjálpar

Birgitta Jónsdóttir, formaður Pírata, birti í gærkvöldi Facebook-færslu á vegg sínum þar sem hún lýsti því hvernig henni leið að hafa setið við hlið Jóns Gunnarssonar í þingsal í heilt ár:

„Ég þurfti að sitja við hliðina á honum í heilt ár og þurfti nánast að leita mér áfallahjálpar vegna dónaskapar hans enda er hann þekkur fyrir að tuddast áfram yfir allt og alla á þinginu.“

Birgitta lét þessar athugasemdir falla um Jón vegna ummæla hans um Björk Guðmundsdóttur tónlistarkonu, en í ræðu sinni á Alþingi veltir þingmaðurinn sem situr fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins því fyrir sér hvort Björk borgi nokkuð skatta á Íslandi, og segir hana vera dauflega til augnanna.

Forsætisnefnd tæki málið fyrir

Jón stakk þá upp á því að málið yrði sérstaklega rannsakað hjá forsætisnefnd:

„Ég kannast sem sagt ekki við þetta sérstaklega, finnst þetta alvarlegt, finnst þetta leitt ef svo er að þingmenn sem eru sessunautar mínir hér á þingi þurfi að leita sér áfallahjálpar eftir slíkt en ég tel fullt tilefni til þess að um þetta verði fjallað í forsætisnefnd og málið skoðað sérstaklega.“

Birgitta kallaði þá úr salnum til pontunnar að þetta mætti endilega gerast.

Fliss og fruss

Því næst talaði Birgitta um að enginn núlifandi Íslendingur hefði gert eins mikið fyrir land og þjóð og Björk Guðmundsdóttir. Heyrðist þá fruss úr salnum.

Birgitta gerði stutt hlé á ræðu sinni til að spyrja hver hefði gerst svo frakkur að frussa svo vandlætislega.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra svaraði spurningunni fljótt og kallaði „Ég!“ upp í pontu til Píratakafteinsins.