Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, segist ekki hafa aðgang að neinum skjölum og því ekki getað staðfest þann orðróm sem hún heyrði. Líkt og Viðskiptablaðið sagði frá í gærkvöldi hafði hún heyrt af undirskrift föður Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra undir meðmælabréf um uppreisn æru sakamanns „fyrir löngu.“

Þetta kemur fram á Facebook síðu hennar, en þó reynt hafi verið að gefa henni kost á að gefa sína hlið á málinu, hefur Viðskiptablaðið hefur ekki náð í hana í dag. „Ég hafði ekki aðgang að neinum skjölum og gat því ekki staðfest þann orðróm sem ég heyrði," segir Birgitta meðal annars í færslunni og segist ekki hafa búið svo vel ólíkt dómsmálaráðherra.

„Ég dreifi ekki einhverju sem ég veit ekki hvort að eigi við rök að styðjast. En ef það er svo að þrálátur orðrómur var um þetta í mínum örtengslaneti, þá er ekki ólíklegt að einhverjir fleiri útí samfélaginu hefðu heyrt þetta og ekki ólíklegt að sjálfstæðismenn væru þar á meðal einfaldlega vegna þess hve margir þeir eru.“

Birgitta hefur pistilinn á orðunum: „Það sem Halldór segir!!!“ og vísar svo á orð Halldórs Auðar Svanssonar borgarfulltrúa Pírata, þar sem hann heldur því fram að um rógburð sé að ræða ásamt því að hann fer mikinn í því að brigsla Sjálfstæðisflokkinn um spillingu og skort á ærlegheitum. Á facebook síðu Viðskiptablaðsins hefur hann einnig uppi stór orð og sakar Viðskiptablaðið um lygar.

Í færslunni sem Birgitta vísar í frá Halldóri, heldur hann því fram að einungis dómsmálaráðherra hafi haft aðgang að upplýsingunum en ekki allir ráðherrarnir, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hafa allir ráðherrar aðgang að gögnum um uppreisn æru. Þó má geta þess eins og einnig hefur verið fjallað um að Óttarr Proppé hafði fyrst heyrt um undirskriftina frá forsætisráðherra á mánudaginn í síðustu viku að eigin sögn.