Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, segir á facebook síðu Pírata þar sem flokkurinn ræðir stefnu sína og markmið að eina leiðin til að koma Sjálfstæðisflokknum frá sé að breyta stjórnskipan og regluverki í okkar æðstu lögum eins og hún orðar það.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá vill Birgitta og þingflokkur Pírata meðal annars að stjórnarskránni verði breytt fyrir kosningar sem er athyglisvert í samhengi við orð hennar á pírataspjallinu.

„[Þ]eir sem halda að Sjálfstæðisflokkurinn veikist mikið til langtíma verði fyrir allmiklum vonbrigðum. Mér finnst það reyndar absúrd hve stjórnmál hérlendis snúast mikið um að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum með sömu aðferðinni áratugum saman," segir Birgitta sem virðist hafa gefist upp á því markmiði sínu fyrir komandi kosningar. „Það er ekki að fara að gerast núna, svo mikið er víst."

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gærkvöld i sagðist Birgitta hafa vitað af undirskrift föður forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins á undirskrift með meðmælum við dæmdan barnaníðing fyrir löngu síðan. Þetta sagði hún í samhengi við umræðu um hvers vegna forsætis- og eftirlitsnefnd Alþingis hefði viljað sjá gögn um uppreist æru.

Birgitta hafði sagt fyrr á þessu kjörtímabili að hún hygðist ekki bjóða sig fram í næstu kosningum, en það var áður en ljóst var að þetta þing yrði jafnstutt og raun ber vitni. Viðskiptablaðið greindi frá því þegar hún tók af allan vafa að hún myndi ekki bjóða sig fram á nýju, en nú virðist sem hún vilji ekki að kosið verði strax.

„Af hverju erum við að fara í kosningar eftir 45 daga? Hefur verið reynt til þrautar að mynda t.d. minnihlutastjórn? Munum við sjá miklar breytingar eftir kosningar?“