Mikill munur er á því hvaða kröfur konur og karlar gera í störfum sínum segir Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Símanum. Hún hefur starfað sem stjórnandi hjá Símanum síðustu 10 ár og segir mikinn mun vera á því hvernig kynin líta á sig sem starfsmenn og segir konur setja upp sínar eigin hindranir. Þetta kom fram í viðtali í Sídegisútvarpi Rásar 2 í gær.

„Ég held ég hafi einu sinni fengið ósk um launahækkun frá konu. Karlarnir eru líklegast orðnir um 30 til 40 talsins sem hafa beðið um launahækkun. Þetta eru kannski ýkjur en munurinn er mikill. Það er almennt munur á kröfum um kjör og framgang í starfi. Stelpur eru ekki næstum því nógu duglegar að gera kröfur og gera sér grein fyrir sínu virði og nýta það,“ segir Birna.

Birna er meðal fyrirlesara á fundi Íslandsbanka sem haldinn verður á fimmtudaginn þar sem fjallað verður um ljónin í veginum. Fundurinn er liður í fundarröð Íslandsbanka í tilefni af 100 ára kosningaafmæli kvenna og er haldinn í samstarfi við Ungar athafnakonur.