Birna Ósk Einarsdóttir er á förum frá Símanum á vit nýrra verkefna að því er kemur fram í tilkynningu Símans til Kauphallarinnar. Birna hefur verið framkvæmdastjóri hjá félaginu í sex ár og stýrir nú sölu- og þjónustusviði og vel á þriðja hundrað starfsmönnum.

Birna Ósk Einarsdóttir segir: „Ég hef ákveðið að láta reyna á krafta mína og reynslu utan Símans. Það hafa verið forréttindi að vinna hjá félaginu á þessum miklu mótunarárum fjarskipta. Síminn býr að tryggum viðskiptavinum, góðu starfsfólki og áhugaverðri framtíð sem ég hlakka til að fylgjast með úr fjarlægð. Ég er ánægð með árangurinn og þakka fyrir gefandi samstarf við vinnufélaga og að fá að móta Símann um leið og hann styrkti mig sem starfsmann.“

Orri Hauksson, forstjóri Símans tekur fram: „Við sjáum eftir Birnu Ósk, sem hefur verið lykilmanneskja hjá Símanum um langa hríð. Framlag hennar til fyrirtækisins og viðskiptavina okkar hefur verið framúrskarandi. Við óskum Birnu velfarnaðar í þeim verkum sem hún tekur sér fyrir hendur og óskum nýjum vinnustað hennar til hamingju með frábæra ráðningu.“

Birna Ósk hefur starfað hjá Símanum frá árinu 2001, fyrst við almannatengsl og mannauðsmál en nú síðast sem framkvæmdastjóri Sölu- og þjónustusviðs. Sviðið ber ábyrgð á árangri bæði á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði og skiptist í fjórar einingar; einstaklingssölu, viðskiptastýringu og sölu, þjónustu og vefþróun sem og markaðsmál. Næstu vikurnar hnýtir hún lausa enda hjá Símanum áður en hún hverfur á braut.