Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær hlaut Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, viðurkenningu Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) í gær.

Viðurkenninguna hlaut Birna fyrir að hafa verið óeigingjörn að miðla reynslu sinni til karla og kvenna í viðskiptalífinu, og þá hefur hún einnig lagt sérstaka áherslu á starfsþróun kvenna innan Íslandsbanka.

Við athöfn FKA sem haldin var í Hörpu í gær sagði Birna örfá orð um stöðu kvenna í atvinnulífinu.

„Ég held við séum á ákveðnum tímamótum í jafnréttismálum í dag. Við þurfum endalaust að finna nýjar leiðir til að koma skilaboðum okkar á framfæri, rétt eins og með allt annað.”

Birna velti því svo fyrir sér hvort samtök á borð við FKA - samtök eingöngu skipuð konum - séu barn síns tíma. Að hennar mati er nauðsynlegt að næsti hluti jafnréttisbaráttunnar taki karla inn í baráttuna.

„Kannski eru samtök sem eingöngu eru skipuð konum barn síns tíma og næsti fasi þarf nýjar áherslur. Við eigum að taka karlana inn í baráttuna því ungir menn í dag sjá þessi mál öðruvísi en flestir menn eldri kynslóða. Við sjáum aðila eins og nýja forsætisráðherra Kanada og við eigum fullt af flottum talsmönnum jafnréttis á Íslandi og þeir eru margir í Íslandsbanka.”