Fjármálaráðuneytið hefur birt reglur um eignarhald í fjármálafyrirtækjum í tilefni kaupa fjögurra fjárfestingarsjóða á hlutum í Arion banka.

Þar á meðal helstu reglur sem gilda um eignarhald í fjármálafyrirtækjum, tilkynningu um kaup á hlutum í Arion banka hf. og þau sérstöku skilyrði sem Kaupþingi hf. voru sett fyrir eignarhaldi á virkum eignarhlut í Arion banka hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 2010.

Þau atriði sem koma til skoðunar við mat á því hvort aðili telst vera hæfur til þess að fara með virkan eignarhlut eru í grunninn fimm.

Þessi atriði eru:

  1. Orðspor þess sem hyggst eignast virkan eignarhlut.
  2. Orðspor og reynsla þess sem mun veita fjármálafyrirtæki forstöðu.
  3. Fjárhagslegt heilbrigði þess sem hyggst eignast virkan eignarhlut og ber að taka tillit til þess reksturs sem viðkomandi fjármálafyrirtæki hefur.
  4. Hvort ætla megi að eignarhald muni torvelda eftirlit með fjármálafyrirtækinu eða hafa áhrif á það hvort fyrirtækið muni starfa lögum samkvæmt. Ber m.a. að horfa til fyrri samskipta við viðkomandi aðila bæði gagnvart FME og öðrum stjórnvöldum þ.á m. önnur stjórnvöld á EES-svæðinu.
  5. Hvort ætla megi að eignarhald eigandans muni leiða til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka eða eignarhaldið muni auka líkur á að slíkt muni viðgangast innan fjármálafyrirtækisins.

Í tilkynningu sem FME birti 20. mars 2017, í tilefni af kaupum á eignarhlutum í Arion banka kemur fram að kaupin hafi ekki áhrif á skilyrði sem FME setti árið 2010 fyrir virkum eignarhlut Kaupþings hf. í Arion banka hf. í gegnum eignarhaldsfélagið Kaupskil ehf.

Nánar má lesa um reglurnar á vef Fjármálaráðuneytisins .