Fjölmiðlanefnd hefur gefið út skýrslu um skiptingu birtingafjár milli fjölmiðla á Íslandi árið 2016. Hún byggir á upplýsingum, sem nefndin aflaði hjá fimm stærstu birtingahúsum landsins: ABS fjölmiðlahúsi, Birtingahúsinu, MediaCom, H:N Markaðssamskiptum og Ratsjá Media (Ratsjá og Pipar-TBWA.)

Talið er að birtingarhúsin ráðstafi um helmingi birtingarfjár auglýsinga, svo líklega lætur nærri að um 10 milljörðum kr. sé varið til auglýsingabirtinga á ári.

Inni í þessum tölum eru ekki auglýsingar sem keyptar voru milliliðalaust af fjölmiðlunum sjálfum og eins er birtingarkostnaður í erlendum vefmiðlum (aðallega Facebook og Google) verulega vanmetinn.

Sé litið til þróunar undanfarinna ára er hlutfallsleg skipting nokkuð jöfn, en prentmiðlar hafa þó látið nokkuð síga undan vefmiðlum, um 3 prósentustig undanfarin þrjú ár.