Fyrir rétt um ári var virði rafmyntarinnar Bitcoin á mikilli siglingu, sem endaði með því að 20. desember náði það hámarki sínu, eða 19.783,21 Bandaríkjadölum. Var það mikil hækkun frá um miðjum nóvember sama ár, þegar virðið var 6.088,35 dalir, en hækkunin fram til 20. desember nam því um 250%.

Nú fæst eitt bitcoin fyrir 482 þúsund íslenskar krónur, eða sem samsvarar 3.905,68 dölum, en um tíma í gær fór virðið aftur yfir 4.000 dalina. Það var eftir að virði rafmyntarinnar fór niður í 3.477,58 dali á sunnudagsmorgun, sem er lægsta gengi rafmyntarinnar síðan í september í fyrra.

Aðrar rafmyntir hafa einnig lækkað undanfarið en náðu sér eilítið á strik á ný aftur í gær. Lækkunin á virði Bitcoin er sú mesta á einni viku síðan í apríl 2013, þegar rafmyntin missti um 44% af virði sínu.

Virði rafmyntarinnar fór undir 6.000 dali um miðjan nóvember síðastliðinn, eftir nokkurn stöðugleika í október. Á þessu ári hefur virði rafmyntarinnar því minnkað um yfir 80%.

Rafmyntir eins og Bitcoin og fleiri hafa í auknum mæli þurft að sæta reglusetningum stjórnvalda út um allan heim, en um það leiti sem hækkunin var sem mest var Bitcoin að komast inn á nokkrar formlegar fjármálamiðstöðvar.

Jafnframt eru bandarísk stjórnvöld nú að skoða hvort hækkunin fyrir ári síðan hafi verið vegna markaðsmisnotkunar og stýringar þeirra sem áttu stóra eignarhluti í rafmyntinni.