Árið 2016 gæti reynst ansi arðbært fyrir eigendur rafrænu myntarinnar Bitcoin, en margt bendir til þess að hún gæti rokið upp í verði á næstu 12 mánuðum. Ástæðan er einföld, framboð á myntinni kemur til með að dragast saman.

Bitcoin hefur notið vinsælda í ljósi nafnleyndar sinnar og skorts á peningayfirvöldum, en þrátt fyrir að hafa opnað nýjar víddir í heimi peninga hefur myntin verið talin of áhættusöm til að fjárfesta í vegna mikilla gengissveiflna.

Ástæðan fyrir því að virði rafmyntarinnar gæti aukist árið 2016 er þó sú sama og gildir um alla aðra valdboðsgjaldmiðla, samspil framboðs og eftirspurnar. Til að skilja ástæðurnar þarf að átta sig á því hvernig Bitcoin verður til.

Enginn seðlabanki getur prentað Bitcoin, heldur er notaður eins konar „námugröftur“ til að búa til myntina. Tölvur eru látnar leysa stærðfræðiþrautir og þeir fyrstu til að leysa þrautirnar fá verðlaun upp á 25 stykki af Bitcoin, sem jafngildir um 11.000 dollurum í dag.

Þegar Bitcoin var stofnað árið 2008 af hinum dularfulla „Satoshi Nakamoto“, sem enn hefur ekki verið borið kennsl á, þá var kerfið hannað þannig að verðlaunin yrðu helminguð á u.þ.b. fjögurra ára fresti til að koma í veg fyrir of mikla verðbólgu. Næsta slíka helmingun mun eiga sér stað í júlí 2016.

Þá á Bitcoin einnig að bera ákveðna eiginleika hrávöru, með því að vera með endanlegt framboð upp á u.þ.b. 21 milljón mynta. Það takmark ætti að nást eftir um 125 ár, en í dag eru um 15 milljónir Bitcoin mynta í umferð.

Daniel Masters er einn af þekktustu og umsvifamestu Bitcoin fjárfestum heims og hann telur að myntin gæti náð sínum hæstu hæðum síðan hún fór upp í 1.100 dollar árið 2013 og býst við því að hver Bitcoin verði 4.400 dollara virði árið 2017. Ef það gengur eftir munu þeir sem fjárfesta í Bitcoin í dag fá meira en áttfalda ávöxtun á innan við tveimur árum.

Masters telur að helmingun námuverðlaunanna muni sjálfkrafa hækka verðið um 50 prósent en telur að aðrir áhrifaþættir á borð við fjölgun fyrirtækja sem samþykkja greiðslur í Bitcoin, aukinn áhugi fjárfesta og aukin eftirspurn frá Kína muni keyra upp verð rafmyntarinnar.

„Ef OPEC (samtök olíuútflytjenda) myndu á morgun segja að þau ætluðu sér eftir hálft ár að minnka framboð á olíu um helming, þá myndi olíuverð bregðast við undir eins. En Bitcoin markaðurinn er enn á barnsaldri og ég tel að þessi breyting sé ekki komin að fullu inn í verðið,“ sagði Masters.

Verð Bitcoin hefur nú þegar nánast tvöfaldast á undanförnum þremur mánuðum og í síðasta mánuði rauf myntin 500 dollara múrinn í fyrsta skiptið frá því í ágúst í fyrra. Myntin féll þó aftur í verði og er í dag 440 dollara virði.