Bitcoin hafa hækkað um 20% í morgun miðað við verð þess á föstudag. Er þetta talið vera vegna þess að í næsta mánuði mun framboð rafmyntarinnar líklega minnka vegna innbyggðra takmarkana í kóðann á bakvið myntina.

Ágóði minnkar um helming

Þeir sem nota myntina sjá um að staðfesta allar millifærslur og framan af gátu venjulegar heimilistölvur sinnt þessum aðgerðum meðan kóðinn var af viðráðanlegri stærð. En innbyggt er í kerfið að kóðinn lengist sífellt svo stærri og öflugari tölvur þarf til, svo það borgi sig að stunda slíka staðfestingu, sem á máli notenda er kallað mining eða námuvinnsla.

Fá þeir sem staðfesta millifærslur og viðskipti með myntina greiðslur sem nemur ákveðnu magni af rafmyntinni sem verða til í kerfinu og er úthlutað handahófskennt. En jafnframt er innbyggt inn í kóðann að þetta magn helmingast fyrir hverja 210.000 rafmyntir sem framleiddar eru svo ágóðinn af námuvinnslunni minnkar en að sama skapi er komið hámark á fjölda mögulegra nýrra mynta sem verða til.

Óhreyfður fjársjóður

Þannig er ljóst að fjöldi mynta mun ekki geta farið uppfyrir 21 milljón en síðast þegar helmingun á ágóðanum átti sér stað varð verðhækkun rafmyntarinnar nægileg til að vega uppá móti og gott betur.

Stofnandi Bitcoin sem gengur undir dulnefninu Satoshi Nakamoto er talinn hafa yfir að ráða 1 milljón bitcoin mynta sem enn hafa ekki verið hreyfðar.