Gengi rafmyntarinnar Bitcoin fór í fyrsta sinn yfir 4.000 dollara í gær. Það stendur nú í 4.206 dollurum og hefur hækkað um 21% síðan á föstudag. Samkvæmt frétt Bloomberg er ástæða hækkunarinnar sú að fjárfestar eru bjartsýnni á að eftir því sem millifærslur muni taka skemmri tíma þá útbreiðsla myntarinnar aukast.

Fyrir tveimur vikum síðan skiptist Bitcoin upp í tvær rafmyntir. Hina upprunalegu Bitcoin, og aðra mynnt sem ber heitið Bitcoin Cash. Ástæðan fyrir skiptingunni voru deilur innan Bitcoin samfélagsins um hvernig ætti að takast á við tafir í millifærslum með myntina.

Síðan þá hefur gengi Bitcoin hins vegnar hækkað um 53%. Bitcoin hefur verið á flugi á þessu ári þrátt fyrir að mikið flökt hafi verið á genginu. Frá áramótum hefur gengið rúmlega fjórfaldast frá því er það stóð í 968 dollurum við lok síðasta árs.