Bjarnfreður Ólafsson segist í samtali við Viðskiptablaðið ekki skilja hvernig Hæstiréttur hafi komist að svo afdráttarlausri niðurstöðu að rætt hafi verið um Ólaf Ólafsson í símtali sem hann átti og vitnað er til í niðurstöðum réttarins.

Ingibjörg Kristjánsdóttir, eiginkona Ólafs Ólafssonar, skrifaði í morgun grein í Fréttablaðið þar sem því er haldið fram að í dómi Hæstaréttar í Al-Thani málinu hafi Ólafi verið ruglað saman við lögfræðing með sama nafni. Í greininni segir Ingibjörg að í upphafsforsendum dómsins vísi Hæstiréttur til símtals í gögnum málsins, þar sem fram komi að ítrekað hafi verið rætt við „Óla“ um nákvæma útfærslu viðskiptanna.

Þar vísar Ingibjörg til þess þegar Hæstiréttur talar í niðurstöðu sinni um samtal milli Bjarnfreðar Ólafssonar, lögmanns hjá Logos, og Eggerts Hilmarssonar, sem var á þessum tíma framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Kaupþings í Lúxemborg. Í dómi Hæstaréttar segir m.a.:

„Ítrekað kom fram í þessu símtali að BÓ [Bjarnfreður Ólafsson, innsk. blm.] hafi rætt við „Óla“, sem hann kaus að nefna svo og bersýnilega var ákærði Ólafur, um ýmis atriði í tengslum við viðskipti með hlutabréfin.“

Ræddi við Ólaf Arinbjörn - ekki Ólaf Ólafsson

Bjarnfreður Ólafsson.
Bjarnfreður Ólafsson.

„Það sem að liggur fyrir er að ég talaði við Ólaf Arinbjörn Sigurðsson lögfræðing á þessum tíma. Það liggja fyrir vitnaskýrslur um það. Ég spyr hann hvort það þurfi að flagga viðskiptunum, og svo ræðum við saman aftur og ég fer yfir það hvort það þurfi að flagga þegar um er að ræða arðgefandi lán, og við komumst að þeirri niðurstöðu að það þurfi ekki í hvorugu tilfellinu,“ segir Bjarnfreður.

Bjarnfreður segir að samkvæmt hans bestu vitund hafi alltaf verið gengið út frá því, bæði við rannsókn og flutning málsins, að þarna væri átt við Ólaf Arinbjörn, en ekki Ólaf Ólafsson.

„Útskrift samtalsins passar alveg við það. Ég skil ekki hvernig Hæstiréttur kemst að svo afdráttarlausri niðurstöðu að þarna sé átt við Ólaf Ólafsson. Það er alls ekkert afdráttarlaust við það, og allar tilvísanir í Óla benda til þess að þar hafi verið átt við Ólaf Arinbjörn.“

Talaði við Ólaf Ólafsson eftir fall bankans

Aðspurður hvort hann hafi rætt við Ólaf Ólafsson á einhverjum stigum málsins segir Bjarnfreður svo vera. Hins vegar telji hann samtalið hafa átt sér stað eftir fall bankans, líkt og hann hafi vitnað um á sínum tíma.

„Á einhverjum tímapunkti heyrði ég örsnöggt í honum. Ég var skattaráðgjafi hans og það var bara út frá þeim vangaveltum. Hann hafði heldur enga ástæðu til þess að hringja í mig út af Kauphallarmálum. Hann hafði aðra lögmenn í því sem ekki störfuðu hjá Logos,“ segir Bjarnfreður.