Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins er kominn í stjórn, eða svokallaða eigendanefnd Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu.

Var Bjarni Ben, eins og hann er stundum kallaður, kjörinn í nefndina á 27. ársfundi bankans, sem haldinn var við Dauðahafið í Jórdaníu 9. til 10. maí síðastliðinn.

Bankinn var á sínum tíma stofnaður til að styðja við efnahagsþróun og fjárfestingar í ríkjum Austur-Evrópu, en í dag nær starfsemi bankans til 30 landa, sem einnig eru í Mið-Asíu og Suður- og Austur-Miðjarðarhafslönd.

Á fundinum voru umræður um stöðu og framtíðarstefnu bankans, en bankinn, sem skammstafaður er sem EBRD, er alþjóðleg fjármálastofnun sem fjármagnar verkefni á vegum bæði opinberra og einkaaðila.

Á vef stjórnarráðsins segir að á vegum bankans séu tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki að starfa sem ráðgjafar í verkefnum, m.a. á sviði orkumála. Einnig sé hægt að vinna með beinum hætti með bankanum að fjárfestingum á starfssvæðum hans.